140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom meðal annars inn á þá sérkennilegu uppákomu sem varð í utanríkismálanefnd þegar þetta mál var tekið út. Það er svo sem ekki það eina sem mér finnst sérkennilegt við þetta mál, frú forseti, það er einnig ferill málsins. Það kom fram í ræðu þingmannsins að hér hefðu verið samþykkt fjárlög og við stöndum frammi fyrir því í dag að ef við samþykkjum ekki þessa þingsályktunartillögu getur verið óvissa uppi um afgreiðslu styrkjanna. Hæstv. utanríkisráðherra sagði reyndar við fyrri umr. að þá yrðu þeir bara greiddir úr ríkissjóði og langar mig að heyra álit þingmannsins á því.

Ég ræddi fyrr í dag við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem situr í fjárlaganefnd, um hvernig málið hefði komið inn í fjárlaganefnd og hvort þar hefði orðið umræða um að þetta ferli ætti eftir að fara fram. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að við afgreiðslu fjárlaganna gerði ég mér ekki grein fyrir því að þessi staða væri uppi, að þegar lægi fyrir rammasamningur sem var þá í leyni. Ég hefði haldið og vil spyrja hv. þingmann um álit hans á því, hvort ekki hefði verið eðlilegra að þessi þingsályktunartillaga hefði komið fram fyrst. Ég gat ekki skilið betur af máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar en að ekki hefði farið fram nein umræða í fjárlaganefnd um þetta vegna þess að tekjuhliðin, frumvarpið um ívilnunina, er hjá efnahags- og viðskiptanefnd, og þingsályktunartillagan og rammasamningurinn hjá utanríkismálanefnd. Þetta mál hefur því komið hingað inn í þingið á mjög undarlegan hátt, kannski með sambærilega undarlegum hætti og úttektin í utanríkismálanefnd. Er þetta mál ekki hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórnina, að hún reyni að troða því í gegnum (Forseti hringir.) þingið og blekkja í raun og veru þingmenn? Ég man ekki eftir því að þetta hafi legið ljóst fyrir við fjárlagasamþykktina.