140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á ekki sæti í fjárlaganefnd en hitt er annað mál að ég fylgdist vel með umræðum í þingsal um fjárlagafrumvarpið, bæði 1., 2. og 3. umr., og tók þátt í þeim öllum. Ég man eftir að IPA-styrkina bar á góma bæði í tengslum við tekjuhlið og gjaldahlið en það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, alla vega man ég ekki til þess og hef ekki fundið um það dæmi, að ekki var nefnt í þeirri umræðu að bæði móttaka þessara styrkja og útdeiling þeirra til ákveðinna verkefna, sem vissulega fer í gegnum fjárlagafrumvarpið, væri á nokkurn hátt bundin því skilyrði að einhver tiltekin þingmál önnur yrðu samþykkt á þingi.

Það er auðvitað athyglisvert eins og ég nefndi áðan hvað þessi mál koma seint fram. Þingsályktunartillagan sem við ræðum í dag um rammasamninginn var komin inn í þingið 2. desember þegar fjárlagaumræðu var að langmestu leyti lokið, fjárlagaferlið eiginlega að enda komið og verið að vinna að síðustu breytingartillögum eins og menn þekkja og gert er að jafnaði í byrjun desember. Sama á við um skattafrumvarpið sem kom inn í lok nóvember, 30. nóvember. Þessi mál koma því inn tveimur mánuðum eftir að lagt er fram fjárlagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að þessum styrkjum sé veitt móttaka og þeim ráðstafað með tilteknum hætti. Öll framsetning þessa máls og allur blær þess er þannig að það er eins og það hafi átt að fá eins litla athygli og hægt var. Mig rennir í grun að ekki hafi síður vakað fyrir mönnum að stilla okkur þingmönnum upp við vegg og segja: Það er búið að ganga frá þessu í fjárlögum, þið eigið ekki annarra kosta völ en að samþykkja þingmál sem snúast um styrkina.