140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til að vekja athygli á því að olíufélögin í landinu skila ekki með nægilega fullnægjandi hætti þeim verðlækkunum á heimsmarkaði á olíu sem verið hafa á undanförnum vikum. Staðreyndin er sú að á síðustu fjórum vikum, í maímánuði, hefur heimsmarkaðsverðið á olíu lækkað um 16%. Það vekur mikla athygli að bensínverð á Íslandi hefur einungis lækkað um 4,4%. Síðan hefur gengi dollarans hækkað um ríflega 3% til viðbótar þannig að ríflega helmingur af lækkun olíunnar á heimsmarkaði situr eftir hjá olíufélögunum, það skilar sér ekki til almennings í landinu. Þetta eru engar smátölur. Ef öll lækkunin hefði skilað sér í vasa almennings ætti bensínlítrinn núna að vera í kringum 20 kr. lægri en hann er þannig að allur Eurovision-afslátturinn sem veittur var síðastliðinn sunnudag ætti að skila sér til landsmanna á hverjum einasta degi.

Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu og skora á olíufélögin að láta þessa miklu lækkun á hráolíunni skila sér beint til neytenda. Þetta hefur áhrif á öll húsnæðislán í landinu sem tekin eru með blessaðri verðtryggingunni eins og við þekkjum. Það er eitt mikilvægasta verkefni okkar í efnahagsmálum þessi missirin að reyna að halda verðbólgunni niðri. Þar er reyndar þörf á því að mínu mati að stjórnvöld setjist niður með aðilum vinnumarkaðarins og fari með formlegum hætti í skipulagðar aðgerðir til að halda verðbólgunni í skefjum. Það eru reyndar tímabundin jákvæð teikn á lofti. Verðbólgan hækkaði mun minna í síðasta mánuði en mánuðina þar á undan en þarna þurfum við sannarlega að halda vöku okkar.