140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ræddi í eldhúsdagsumræðum um lýðskrum meirihlutaflokkanna á þingi. Nú fáum við það staðfest í enn einu málinu, sjávarútvegsmálunum. Ekki hefur vantað leikritið, ekki hefur vantað leiktilburðina hjá nefndarmönnum í atvinnuveganefnd, nefndarmönnum meirihlutaflokkanna hér á þingi þar sem umsögnum og komum gesta hefur verið fagnað með leikrænum tilburðum og sagt að nú séu málin til skoðunar, það sé mjög gott að fá þessar upplýsingar og að til þeirra verði tekið tillit að lokum.

Hver er svo niðurstaðan eftir 20 fundi? Allar hástemmdu yfirlýsingarnar, allt lýðskrumið sem við höfum orðið vitni að um að ekki eigi að ganga svo hart fram gagnvart fólki í grunnatvinnuvegi þjóðarinnar? Breytingarnar eru nánast engar. Ekkert tillit er tekið til þeirra umsagna sem komið hafa eða lítið sem ekkert.

Við erum að verða vitni að miklu höggi sérstaklega fyrir landsbyggðina í þessu landi. Margföldun veiðigjalda sem verður sennilega um 20 milljarðar þegar upp verður staðið, fimm-, sex-, sjö-földun á því veiðigjaldi sem við höfum verið að innheimta. Það má vera að mörgum hafi fundist það vera fulllágt en er þetta ekki fulllangt gengið? Sú niðurstaða gengur gegn þeim markmiðum sem sett eru í þessum frumvörpum. Niðurstaðan gengur gegn því markmiði að nýliðun verði auðveld í sjávarútvegi, hún verður erfið. Það verða ekki aðrir en efnað fólk, kannski helst þeir sem selt hafa sig út úr greininni, sem geta farið í nýliðun í sjávarútvegi. Aðrir sitja nú eftir með skuldirnar vegna kaupa sinna og ekki er tekið tillit til þeirra þegar skerða á aflaheimildir þeirra sem þeir hafa keypt samkvæmt lögum.

Maður spyr sig að því, virðulegi forseti: Eru þetta vinnubrögðin í öðrum málum? Er það til einhvers að trufla fólk í vinnu við rammaáætlun núna? Að láta fólk leggja í þá miklu vinnu úti um allt land að koma með einhverjar athugasemdir og umsagnir fyrir nefndina? Að láta nefndina kalla fólk (Forseti hringir.) alls staðar að af landinu til að koma til fundar við nefndina með tilheyrandi kostnaði og vinnu? Er það einhvers virði? Ég spyr. Það er miklu hreinlegra að þessi meiri hluti leggi spilin á borðið og segi: (Forseti hringir.) Við ætlum ekki að hlusta á ykkur. Við tökum ekkert tillit til sjónarmiða ykkar.

Það er vanvirðing að koma svona fram við fólkið í landinu, virðulegi forseti.