140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef litið á það sem eitt af mínum stærstu aukahlutverkum á þingi að sjá til þess að auka á daglega ánægju stjórnarandstöðunnar og ég hef lagt mig talsvert fram í því þó að ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki alltaf haft erindi sem erfiði á þeim vettvangi. En ég hélt satt að segja að ég væri að uppskera hvað þetta varðar á undanförnum dögum í umræðum í atvinnuveganefnd um tvö frumvörp sem nefndin hefur haft þar til umfjöllunar um sjávarútvegsmál, annars vegar um veiðigjöld og hins vegar um stjórn fiskveiða.

Nefndin afgreiddi í gær frá sér nefndarálit um frumvarp til laga um veiðigjöld. Um það hafði verið mikil umræða í nefndinni, bæði meðal gesta og hjá umsagnaraðilum og svo innan nefndarinnar sjálfrar. Satt best að segja leist mér þannig á umræðurnar í nefndinni á milli stjórnar og stjórnarandstöðu að það væri að nást allgóð lending í því máli. Mér fannst stjórnarandstaðan vera allt að því sultuslök alveg fram á síðustu stundu þegar málið var rætt út og menn settu sig í ákveðinn gír til að stilla þessu svona upp gegn stjórninni og allt hefðbundið í þeim farvegi.

Svo var eins og fjandinn yrði laus þegar opnað var á umræður um hitt málið, um stjórn fiskveiða, og lagðar fram tillögur, ég endurtek lagðar fram tillögur að breytingu til umræðu í nefndinni og menn létu eins og himinn og jörð hefðu farist, fóru þar með miklar ræður og fúkyrðaflaum gagnvart einstaklingum í nefndinni og vinnubrögðum þar. Ég hvet vini mína í stjórnarandstöðunni til að reyna að ná áttum. Ég ætla að vona að þeir hafi sofið á málinu vel í nótt og verði í meira jafnvægi í dag til að hægt sé að ræða þessi mikilvægu mál þannig að það verði ekki gert í þeim andarteppustíl sem virtist ætla að gerast í gær. Málið hefur ekki verið afgreitt úr nefnd, það er enn þar til umræðu. Það hafa verið lagðar fram tillögur af hálfu stjórnarliða um lausn á því máli, engar tillögur (Forseti hringir.) komu hins vegar frá stjórnarandstöðunni og við bíðum spennt eftir því. Vonandi koma þær í dag. (Gripið fram í: Vísa málinu frá.)