140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ef hv. þm. Björn Val Gíslason vantar tillögu um meðferð á fiskveiðistjórnarmálunum þá skal ég koma með eina núna, mjög skýrt fram setta: Leggjum þessi mál til hliðar og byrjum upp á nýtt vegna þess að þessi mál eru ónýt.

Eins og hér hefur komið fram hefur ekkert tillit verið tekið til athugasemda, fjölmargra athugasemda sem hafa komið til nefndarinnar frá sveitarfélögum, hagsmunaaðilum, sjómönnum, útgerðarmönnum, fiskvinnslufólki, öllum atvinnugreinum sem tengjast þessari mikilvægustu undirstöðuatvinnugrein okkar. Ekkert tillit tekið til þess. Á hátíðarstundum segir stjórnarmeirihlutinn: Af hverju erum við að fara í þessar breytingar? Jú, það er til að skapa sátt í samfélaginu um þessa mikilvægu undirstöðuatvinnugrein. Sátt, og réttlæti er líka nefnt, mikið réttlæti. Hvernig ætlar stjórnarmeirihlutinn að útskýra það fyrir þúsundum starfsmanna í þessari atvinnugrein, fyrir sveitarfélögunum og íbúum þeirra allt í kringum landið, að tekjur af þessari atvinnugrein munu dragast saman, allt í nafni sáttar, allt í nafni réttlætis. Þetta er innihaldslaust blaður sem engin innstæða er fyrir.

Ég vil líka gera að umtalsefni störf þingsins. Við erum á seinasta degi samkvæmt starfsáætlun með öll þessi mál upp í loft sem aldrei fyrr. Við í stjórnarandstöðunni erum að leggja okkur fram. Það sést meðala annars á dagskrá þingsins þar sem við lögðum til að tekin yrðu fyrir mál sem ekki er ágreiningur um og nauðsyn er á að klára. Sem betur fer féllst forseti þingsins á það til að greiða fyrir þingstörfum. En það liggur algerlega fyrir að á sama tíma og menn eru, nefnd eftir nefnd, að breyta þingsköpum, t.d. að leggja af septemberstubbinn sem var gert fyrir ári síðan að þá er engin meining á bak við það vegna þess að nú er verið að hóta því sem við getum kallað ágúststubb í staðinn. Þetta er allt innihaldslaust, frú forseti.