140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur þingmönnum verið tíðrætt um stöðu veiðileyfagjalds og fiskveiðistjórnarfrumvarps. Þess má geta að einungis veiðileyfagjaldið hefur verið afgreitt út úr atvinnuveganefnd og eins og málið lítur út hjá nefndinni núna hefur verulega verið komið til móts við þau sjónarmið sem reifuð hafa verið á vettvangi dægurmálaumræðunnar og hér í þingsal.

Um er að ræða verulega lækkun veiðigjalds. Það er verið að koma til móts við skuldsettar útgerðir og langur aðlögunartími gefinn svo eitthvað sé nefnt. En eftir stendur það grunnprinsipp okkar jafnaðarmanna að þeim arði sem auðlindin gefur á að skipta með þjóðinni sem og þeim sem nýta auðlindina og fá leyfi til þess frá þjóðinni til að sækja auðlindina í sjó. Það grunnprinsipp stendur í því frumvarpi eins og það kemur inn í þingið og verður rætt ítarlega, væntanlega á morgun og eftir helgi.

Seinna frumvarpið, um breytingar á fiskveiðistjórn, er enn þá í nefndinni og er enn á dagskrá nefndarinnar og verður væntanlega rætt þar áfram. (Gripið fram í.) Ég treysti því að nefndarmenn muni halda áfram samtali um það frumvarp með hófsömum hætti eins og hingað til hefur verið gert.

Menn hafa sömuleiðis í þingsal í morgun rætt aðeins skuldavandann sem sum ríki Evrópu búa við. Oft er sá vandi tengdur við myntina en ef við berum saman stöðu þjóða í Evrópu, jafnt þeirra sem eru norðan megin í Evrópu og hinna sem eru sunnan megin, þá sjáum við að staða þeirra er ólík. Þær hafa hins vegar sömu myntina. Svo virðist sem vandi einstakra ríkja sé frekar tengdur skuldum ríkjanna en myntinni sjálfri og þeirri spurningu hafa þeir þingmenn ekki svarað enn sem ganga hart í gagnrýni sinni á evruna: Hvaða leið ætla þeir að bjóða íslenskum heimilum og íslenskum fyrirtækjum út úr þeirri víxlverkun sem þau standa frammi fyrir í gengissigi, verðbólgu og svo þeim alvarlegu gjaldeyrishöftum sem við stöndum frammi fyrir? Hvaða plan ætla þeir að hafa út úr þeim erfiðleikum sem (Gripið fram í.) íslensk heimili standa frammi fyrir?