140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir að hafa afgreitt veiðileyfagjaldið út til umræðu þannig að við getum fengið að takast á um það í þingsalnum. Það er löngu kominn tími til. (JónG: Það verður nýlunda að sjá stjórnarliða taka þátt í umræðunni.) [Hlátur í þingsal.] Hlægilegur hræðsluáróður LÍÚ hefur tröllriðið umræðunni bæði innan (Gripið fram í.) þingsins og úti í samfélaginu (Gripið fram í: En ASÍ?) um veiðigjaldið. (Gripið fram í: En ASÍ?) Og hvert er nú þetta hræðilega veiðigjald sem setja á allt í þrot í landinu, góðir alþingismenn? Þetta er veiðigjaldið, tíkall, 10 kr. á hvert kíló sem veitt er, þorskígildiskíló úr sjó, (Gripið fram í.) og það er rétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að það er fimmföldun frá því sem það var. En, góðir Íslendingar, það er sannarlega mjög sanngjarnt endurgjald fyrir að fá að nýta þessa miklu auðlind. (Gripið fram í.)

Við þetta bætist sannarlega að þegar afkoma sjávarútvegsins fer með himinskautum, þegar gengi krónunnar er í sögulegu lágmarki, þegar makrílveiðar hlaupa á snærið, þegar fyrirsjáanleg er veruleg aflaaukning á næsta fiskveiðiári, þá eru af gríðarlegum hagnaði greiddar kannski um það bil 30 kr. á hvert kíló til viðbótar sem er aðeins hluti þeirrar framlegðar, þeirrar gríðarlegu tugmilljarða framlegðar sem er af sjávarútvegi. Hvers vegna er þetta? Það er vegna þess að þegar gengi krónunnar er með þeim hætti þá eru byrðar okkar Íslendinga gríðarlegar og allir í íslensku samfélagi þurfa að leggja meira af mörkum og þeim sem njóta aðgangsins að auðlindinni og þess gríðarlega hagnaðar sem er í sjávarútveginum er engin vorkunn að því að leggja líka til í sameiginlega sjóði okkar. Og það er rétt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að þó að menn þurfi (Forseti hringir.) að greiða tíkall verður áfram sóttur fiskur á íslensk mið því að það mun enginn setja það fyrir sig að þurfa að greiða þetta sanngjarna veiðigjald í sameiginlega sjóði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)