140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða aðra hluti en það sem hefur komið fram. Mig langar til að benda á vandamál sem snýr að sveitarfélögum í landinu og sérstaklega slökkviliðunum.

Með lögum nr. 160/2010 var slökkviliðum falið það verkefni að bjarga fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði. Það var ljóst að þessu mundi fylgja ærinn kostnaður en í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið kom fram að ekki væri talið að með þessari breytingu og nýjum verkefnum mundi nýr kostnaður falla á sveitarfélögin nema í undantekningartilvikum. Það stóðst því miður ekki og þess vegna hefur kostnaður vegna tækjakaupa fallið á slökkviliðin og þar með sveitarfélögin og fjármagn hefur ekki fylgt þessu nýja verkefni sem nú er lögboðin skylda fyrir slökkviliðin í landinu í landinu að sinna.

Á árunum 2001–2005 gátu sveitarfélögin sótt um styrk til Brunamálastofnunar vegna slökkviliða og gert var ráð fyrir því að hluti brunavarnagjalds rynni til þess að styrkja slökkviliðin. Í áðurnefndum lögum var þetta brunavarnagjald lagt niður en svokallað byggingaröryggisgjald lagt á í staðinn.

Ég hef ásamt nokkrum þingmönnum lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að ákveðinn hluti byggingaröryggisgjaldsins renni hér eftir í brunavarnasjóð og hann hafi það hlutverk að styrkja sveitarfélögin vegna kostnaðar slökkviliðs við kaup á sérhæfðum björgunarbúnaði til björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum.

Virðulegi forseti. Ég veit að þetta er kannski ekki málið sem þingmönnum þykir stærst en þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Ég vil vekja sérstaka athygli á vandamálum slökkviliða í Austur-Húnavatnssýslu, í kringum Blönduós, á þjóðvegi 1, þau vantar fjármagn, og á Dalvík og fleiri stöðum umhverfis landið. Við verðum hér langt fram á sumarið, virðulegi forseti, og ég (Forseti hringir.) held að þetta sé eitt af þessum litlu en mjög mikilvægu málum sem við eigum að taka til umræðu, ná sátt um og afgreiða frá Alþingi.