140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, þ.e. ef henni er beint til mín þar sem henni er bæði beint til formanns atvinnuveganefndar og Björns Vals Gíslasonar, sem er ekki sami maðurinn. Formaður atvinnuveganefndar er hv. þm. Kristján L. Möller en ég reikna með að hv. þingmaður hafi verið að beina fyrirspurninni til mín og mun reyna að svara henni.

Hagsmunir atvinnugreinarinnar eru að mínu mati miklu betur tryggðir í þeim frumvörpum sem við erum með til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, þ.e. í veiðigjaldafrumvarpinu og ekki síður í frumvarpi um stjórn fiskveiða. Hagsmunirnir felast í þeirri langtímahugsun sem felst í frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða að það sé einhver framtíðarsýn, menn sjái rekstur sinn til framtíðar, séu öruggir í tiltekinn tíma hið minnsta og það verði ekki röskun á því nema með löngum aðdraganda. Það tel ég vera mikilvægt fyrir atvinnugrein sem starfar í þessum geira, þ.e. nýtir auðlind, framleiðir úr henni matvæli og selur um allan heim. Það þarf að vera stöðugleiki, það þarf að vera festa sem ekki hefur verið nægilega góð í þessari grein fram að þessu.

Með þeim frumvörpum sem við fjöllum um í atvinnuveganefnd, sérstaklega því síðarnefnda um stjórn fiskveiða, er verið að gera heiðarlega og góða tilraun, nái frumvörpin fram að ganga og meginefni þeirra, til að skapa umhverfi fyrir sjávarútveginn sem hann hefur ekki búið við á nægilega traustum forsendum hingað til. Séu þau tvö frumvörp borin saman sem sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram og nefndin er með til umfjöllunar og síðan ágætisfrumvarp hv. þm. Péturs H. Blöndals mundi ég hiklaust velja það frumvarp sem atvinnuveganefnd er nú með til umfjöllunar og mun vonandi (Forseti hringir.) afgreiða innan skamms.