140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[11:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég sé ástæðu til þess nú við 3. umr. um lokafjárlög 2010 að gera að sérstöku umtalsefni hinn „gríðarlega árangur“ sem núverandi stjórnvöld hafa sagst hafa náð á viðvarandi hallarekstri ríkissjóðs. Það er ástæða til að staldra örlítið við þetta því að ég geld varhuga við orðræðu hv. forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra við eldhúsdagsumræður og hv. þingflokksformanni Samfylkingarinnar við þá sömu umræðu í fyrrakvöld.

Tölurnar sem eru nefndar í þessu sambandi eru yfirleitt teknar úr ríkisreikningi 2008, byrjað þar með hallarekstur upp á 215 milljarða kr. sem vissulega er rétt tala samkvæmt ríkisreikningi og síðan gefið í skyn að með afburðaárangri, ótrúlegri þrautseigju og miklu erfiði sem ekki sé virt í orðum hafi menn náð gríðarlega góðum tökum á því að koma böndum á þennan hrikalega hallarekstur. Ef svo væri væri örugglega enginn skortur á fagnaðarorðum en þegar þetta er skoðað og greint örlítið nánar er ekki um jafneinfaldan veruleika að ræða og gefið er í skyn.

Vissulega var hallareksturinn eða heildarniðurstaðan á árinu 2008 neikvæð upp á 215 milljarða. Þegar maður horfir síðan á ríkisreikning ársins 2010 og þá tölu sem þar er nefnd, mínus 123 milljarða, er það vissulega gríðarlegur árangur og ef hann væri allur mannanna verk væri full ástæða til að fagna því sérstaklega, þetta er lækkun á halla upp á rétt tæpa 100 milljarða kr. Þegar maður skoðar þetta betur og greinir hvernig á þessu stendur kemur dálítið annað í ljós en að þetta sé allt því að þakka að menn hafi lagt svo mikið á sig að koma þessari stöðu á.

Rekstur ríkissjóðs og niðurstaða af reglulegri starfsemi ríkissjóðsins á árinu 2008 var neikvæð um 21 milljarð kr. Það var á hrunárinu svokallaða. Árin þar á undan var niðurstaðan úr þessum hluta ríkisrekstrarins jákvæð upp á 60 milljarða árið 2007, 76 milljarða árið 2006, 2008 varð hún neikvæð upp á 21 milljarð kr. Strax ári síðar, á fyrsta heila starfsári núverandi valdhafa, ef við getum sagt sem svo, stjórnvalda, versnaði afkoman í þessum hluta ríkisins um hátt í 50 milljarða kr., varð neikvæð upp á 69 milljarða, og á árinu 2010 var reksturinn neikvæður upp á rúman 61 milljarð.

Breytingarnar sem hafa gefið stjórnarliðum tækifæri til að miklast af verkum sínum stafa af óreglulegum liðum, sérstaklega innan fjármagnsliða en einnig óreglulegra tekna. Stærsta einstaka breytingin er sú að á árinu 2008 þurfti að afskrifa 192 milljarða kr. vegna tapaðrar kröfu og þar er stærst framlagið í Seðlabankann. Þetta er stærsti einstaki liðurinn, 192 milljarðar í töpuðum kröfum á árinu 2008, sem veldur hallarekstri það ár upp á 215 milljarða kr., en neikvæður afgangur í öðrum liðum er um 30 milljarðar kr. Þetta verkefni kemur vonandi ekki næstu áratugina og er í sjálfu sér ekkert afrek að koma í veg fyrir að 192 milljarða færsla endurtaki sig ár eftir ár.

Þegar maður lítur á árin 2009 og 2010 er sömuleiðis innan óreglulegra gjalda og óreglulegra tekna liðir sem leiða til þess að hallinn minnkar smátt og smátt í heildarsamhenginu. Þar er sennilega einstaka færslan tekjumegin tekjur af peningalegum eignum upp á rúma 17 milljarða á árinu 2010 sem leiðir til bata.

Ég legg áherslu á að þegar við erum að ræða um viðfangsefni stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar númer eitt, til að koma böndum á viðvarandi hallarekstur eigum við fyrst og fremst að beina sjónum okkar að reglulegri starfsemi ríkissjóðs. Því miður er árangurinn þar ekki sá sem gefinn er til kynna af hæstv. ráðherrum og einstaka forsvarsmönnum í stjórnarandstöðunni.

Nú bíðum við eftir niðurstöðum ríkisreiknings fyrir árið 2011. Það verður fróðlegt að sjá með hvaða hætti hann verður leiddur fram og hver árangurinn af reglulegri starfsemi verður á árinu 2011. Ég geri ráð fyrir því að niðurstaðan í þeim reikningi verði ekki í samræmi við þau fjárlög sem upp var lagt með fyrir árið 2011. Stærsta einstaka frávikið í gjaldahluta ríkisstarfseminnar mun væntanlega stafa af áhrifum af kjarasamningum á árinu 2011 sem leiða yfir ríkissjóð allveruleg útgjöld sem nema nokkrum tugum milljarða króna. Vissulega er gert ráð fyrir því í fjáraukalögum að einhverju leyti fyrir árið 2011, en þegar við berum saman upphaflegu áætlanirnar í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 og raunverulega útkomu þegar við fáum hana í hendur er ég þess fullviss að þar verður töluvert mikill munur á, eins og raun ber vitni um í lokafjárlögum ársins 2010, þar eru veruleg frávik á milli annars vegar þeirrar áætlunar sem birtist í fjárlagafrumvarpi fyrir það ár og ekki síður ef við horfum til þeirra áforma sem sett voru fram í skýrslu fjármálaráðherra á árinu 2009 um áætlun um jöfnun í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013.

Eins og hv. þingmenn muna var stefnt að því og markmiðið var sett á það að heildarjöfnuður næðist í ríkisfjármálum í árslok 2012. Því markmiði hefur af hálfu núverandi stjórnarmeirihluta verið frestað og nú er ætlunin að reyna að ná heildarjöfnuði árið 2014. Það verður erfitt verkefni og munu áform birtast okkur í fjárlagafrumvarpinu sem væntanlega verður lagt fram á hausti komanda. Það verður fróðlegt að sjá með hvaða hætti ætlunin er að takast á við þann vanda sem hefur að mati þeirra sem um þessi mál fjalla vaxið á árinu 2011 þvert á það sem að var stefnt, því miður.

Ég vil leggja áherslu á þetta við þessa umræðu vegna þess einfaldlega að ég tel mjög varhugavert að gefa þá mynd af stöðu ríkisfjármála að við séum búin að ná slíkum tökum á þeim vanda sem við er að eiga að tilefni sé til að ætla að við getum haldið áfram með sama hætti að öllu óbreyttu og frekar gefið í ef eitthvað er. Það er langur vegur frá að svo sé.

Í umræðunni um þessi mál ber mikið á þeim misskilningi að eitthvert samasemmerki sé á milli afkomu ríkissjóðs af reglulegri starfsemi og þess sem hægt er að spila með í óreglulegum liðum, bæði tekjuhlutanum og gjaldahlutanum. Að mínu mati er stórhættulegt að gefa til kynna að það spili endalaust saman eins og undanfarin þrjú ár og muni endurtaka sig ár eftir ár. Það er því miður ekki sá veruleiki sem við getum vænst.

Það er ástæða til að nefna aðra þætti í þessu sambandi sem lúta að ýmsu því sem snertir framkvæmd þeirra fjárlaga sem Alþingi samþykkir ár hvert. Fjárlaganefnd hefur á síðustu vikum verið að rýna þessa hluti og gert það bærilega vel að mínu mati. Við höfum fengið menn frá ráðuneytunum til nefndarinnar til viðræðu um veikleika í fjárlagagerðinni allri og eftirfylgni með þeim fjárlögum sem þingið setur. Það hefur birst mér með þeim hætti að full ástæða sé til að gefa því gaum með hvaða hætti framkvæmdarvaldið, Stjórnarráðið, vinnur úr þeim fjárlögum sem Alþingi setur fremur en að fara í saumana á meðferð þingsins á þeim talnagrunni öllum sem fjárlagagerðin er.

Ég vil í þessu sambandi nefna sérstaklega eitt dæmi sem lýtur að því með hvaða hætti ráðuneyti vinna úr þeim heimildum sem Alþingi veitir þeim á fjárlögum. Við höfum dæmi um að ráðuneyti fara fram á það við Alþingi að fá heimildir í fjárlögum til að ráðast í ýmiss konar framkvæmdir og þá er í mörgum tilfellum samið við Framkvæmdasýslu ríkisins sem er sérhæfð í því að halda utan um stofnkostnaðarverkefni. Á milli Framkvæmdasýslunnar og viðkomandi ráðuneyta eru gerðir verkkaupasamningar og virðist viðhorfið innan ráðuneytanna vera í þá veru að með slíkum samningi fari öll ábyrgð á verkinu úr ráðuneytinu yfir á Framkvæmdasýsluna. Það er langur frá því að þetta sé satt og rétt, þvert á móti er þetta í mínum huga leikur ráðuneytanna til að koma sér undan ábyrgð á framkvæmd þeirra tillagna sem þau hafa fengið framgengt í fjárlagaferlinu öllu.

Annað atriði tel ég líka ástæðu til að nefna í þessu sambandi sem gefur okkur ástæðu til að ætla að við í fjárlaganefnd munum við fjárlagagerðina fyrir árið 2011, þegar við fáum ríkisreikning fyrir árið 2011 til meðferðar, taka til umfjöllunar halla á heilbrigðisstofnunum sérstaklega sem ákvæði voru um að yrði frystur. Samkvæmt yfirlýsingu velferðarráðuneytisins voru gefin fyrirheit um að halli nokkurra heilbrigðisstofnana yrði frystur á árinu 2011. Við það var ekki staðið. Ég veit dæmi þess að ekki hefur verið gengið frá þessum málum við viðkomandi heilbrigðisstofnanir, þær fjármagna sig enn á yfirdrætti sem kostar vaxtagreiðslur sem ekki er gert ráð fyrir í áætlunum þeirra fyrir árið 2011. (Gripið fram í.) Þetta kallar að sjálfsögðu á að annaðhvort verður að leysa úr vanda þeirra með aukafjárveitingu eða draga saman í rekstri þeirra meira en áður hefur verið gert og þykir mönnum nóg að gert í þeim efnum.

Það er líka ástæða til að nefna meðferð fjárlaga í tengslum við mál sem hér hefur verið rætt allnokkuð undanfarna daga og eru hinir svokölluðu IPA-styrkir. Í fjáraukalögum á árinu 2010 var 300 millj. kr. fjárveiting færð inn sem tekjur vegna styrks frá Evrópusambandinu við aðlögunarferli Íslands að því. Við sjáum þess ekki stað í umræðunni um IPA-styrkina að þær greiðslur hafi skilað sér. Ég tel ástæðu til að farið verði yfir þetta ferli allt í ljósi þess að málið sem liggur fyrir þinginu er af tvennum toga, annars vegar þingsályktunartillaga um rammasamning fyrir IPA-styrkina sem gerir ríkisstjórn Íslands mögulegt að taka á móti þessum styrkjum — þó að fyrir liggi að það er að minnsta kosti rúmt ár frá því að einhverjar ríkisstofnanir hafa tekið á móti slíkum styrkjum er ekki búið að staðfesta neinn slíkan samning af hálfu Alþingis — og hins vegar liggur fyrir þinginu frumvarp um skattalega meðferð slíkra styrkja. Þetta gefur fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd ástæðu til að fara ofan í það með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hafi unnið í þeim aðlögunarstyrkjum sem þarna er verið að taka á móti af hálfu íslenskra ráðuneyta án þess að fyrir liggi neinar formlegar heimildir í lögum eða þingsályktun.

Þau dæmi sem ég hef nefnt styrkja í rauninni þau varnaðarorð sem ég hef viljað hafa uppi um tal stjórnarliða margra hverra um hinn svokallaða afburðaárangur við stjórn efnahagsmála í stjórnartíð þeirra. Ég vil með þessari ræðu minni leitast við að kippa hv. stjórnarliðum niður á jörðina og fá þá til að viðurkenna þær staðreyndir sem liggja þegar fyrir í staðfestum ríkisreikningi og vænti þess að lestur þeirra gagna sem þar heyra undir, sem vissulega eru mikil að vöxtum, gefi hv. stjórnarliðum tilefni til að ræða um stöðu ríkissjóðs með öðrum hætti en þeir hafa gert, sérstaklega á síðustu missirum.

Það liggur fyrir að árangurinn við stjórn ríkisfjármála samkvæmt þeim lokafjárlögum sem við erum að fara að staðfesta hér var um það bil helmingi verri en að var stefnt. Í mínum huga er ekki ástæða til að gleðjast yfir slíku verklagi þótt vissulega geti verið ástæða til að fagna því að þeir óreglulegu liðir sem ég gerði að umtalsefni við upphaf ræðu minnar hafi létt okkur róðurinn í öllu þessu verki. Staðreyndin er engu að síður sú að það er verið að reka ríkissjóð með umtalsverðum halla og vextir eru enn að aukast sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Það er því full ástæða til að flytja þau varnaðarorð sem ég hef nú gert, ekki síst í ljósi þeirrar galgopalegu umræðu sem sumir stjórnarliðar hafa viðhaft um ríkisfjármál á síðustu missirum.