140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[11:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður benti á það sem er rétt að mínu mati eða ætti að minnsta kosti að vera rétt að það er ekkert sérstakt afrek að koma í veg fyrir að Seðlabankinn verði gjaldþrota ár eftir ár eftir ár. En þá er ég með spurningu til hv. þingmanns, frú forseti. Með hruni bankakerfisins, Seðlabankans og íslensku krónunnar, varð ríkissjóður fyrir gríðarlegu tekjufalli og skuldaaukningu auk þess sem útgjöld jukust vegna atvinnuleysistrygginga og fleiri þátta. Er það rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður telji að núverandi ríkisstjórn hafi ekki náð umtalsverðum árangri í aðlögun ríkissjóðs að heilbrigðari rekstri með þessar skuldaklyfjar á bakinu, tekjutapið eins og það varð og stærri og stærri hluta af útgjöldum ríkissjóðs sem renna í það að greiða vexti af skuldum vegna Seðlabanka, fjármálakerfisins og hallarekstur ríkissjóðs? Telur hv. þingmaður í raun og veru að hér hafi ekki verið náð umtalsverðum árangri?

Af því að ég á örlítinn tíma eftir vil ég taka undir með hv. þingmanni að þessu ástandi er alls ekki lokið og við munum næstu árin — ég ætla ekki að segja áratugi, ég held að það sé ekki svo slæmt — þurfa að sýna aðhald í ríkisrekstri og taka afleiðingum þess sem aflaga fór. En er hv. þingmaður ekki á því að umtalsverður árangur hafi náðst, frú forseti?