140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[11:24]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það veltur á því á hvaða mælikvarða það er sett. Það er alveg hægt að halda því fram að náðst hafi umtalsverður árangur í heildarjöfnuði í ríkisreikningi 2008–2010. Í óreglulegu liðunum, utan reglulegrar starfsemi í ríkissjóði, þ.e. þeim liðum sem gefa mönnum færi á því að tala um að hallareksturinn á ríkissjóði hafi farið úr 215 milljörðum niður í 123 á árinu 2010, er vissulega mikil breyting, en ég benti á það í ræðu minni að það væru engin töfrabrögð sem lægju þar að baki, það væri fyrst og fremst þessi eina stóra færsla sem ylli því.

Þegar maður skoðar síðan árangurinn af reglulegri starfsemi ríkissjóðs er það ekki árangur í mínum huga þegar við horfum til þess að hallinn eykst um 50 milljarða á milli áranna 2008 og 2009, úr 21 milljarði í tæpa 70, og síðan er hallinn af reglulegri starfsemi á árinu 2010 62 milljarðar. Hv. þingmaður nefndi skuldasöfnunina. Á meðan hallinn á reglulegri starfsemi er 62 milljarðar eigum við eftir að borga vexti, þá eigum við eftir að borga af lánum. Það er ekki sá árangur sem mér finnst stjórnarliðar vera að gefa í skyn að hafi náðst. Við erum enn að safna skuldum vegna þess að við rekum enn ríkissjóð með bullandi tapi rúmum þremur árum eftir hrun. Ég er fyllilega meðvitaður um að ýmsir liðir í útgjöldum ríkisins hafa aukist af ýmsum ástæðum, (Forseti hringir.) meðal annars vegna atvinnuleysisins. Einnig hafa verið gerðar tilraunir til að draga úr þeim en það er efni í aðra og lengri ræðu.