140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[11:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, ríkissjóður er enn rekinn með halla en aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa einmitt miðað að því að draga úr þeim hallarekstri. Það var það sem lagt var upp með samkvæmt efnahagsáætlun ríkisstjórnar Geirs H. Haardes sem hefur síðan verið undirliggjandi í ríkisfjármálunum og þá varð ljóst að reksturinn yrði ekki hallalaus fyrr en 2013. Síðan hefur núverandi ríkisstjórn frestað því til ársins 2014 af gildum ástæðum.

Hv. þingmaður kom inn á að erfitt væri að miða við ríkisreikning 2008 því að þar hefðu verið óreglulegir liðir sem voru afskriftirnar vegna gjaldþrots Seðlabankans. Óreglulegir liðir eru auðvitað aðrir en fastir rekstrarliðir ríkissjóðs. En þá vil ég spyrja hv. þingmann: Er það þá málefnalegt að segja að árangurinn hafi verið helmingi verri en áætlað var einmitt vegna óreglulegra liða, sem eru umtalsverð fjárútlán ríkissjóðs eða 33 milljarðar vegna Íbúðalánasjóðs og þess tjóns sem hann varð fyrir vegna hruns fjármálakerfisins?