140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í grunninn hefur þeirri efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld gerðu á haustinu 2008 með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verið fylgt að stærstum hluta, þó ekki einum sem lýtur að því að í þeirri áætlun var gert ráð fyrir mun meiri hagvexti og minna atvinnuleysi en raunin varð á á síðustu þremur árum. Það var með öðrum orðum gert ráð fyrir meiri vexti í atvinnulífinu samkvæmt þeirri áætlun en þeim veruleika sem við höfum horft framan í á síðustu þremur árum eftir að núverandi ríkisstjórn tók við stjórn þessarar sömu áætlunar. Við þekkjum ágætlega, ég og hv. þingmaður, hvernig stendur á því. Framkvæmdastopp í þjóðfélaginu vegna pólitískra deilna sem lúta að sjávarútvegi, fiskveiðistjórnarkerfinu, virkjanakostum o.s.frv. hefur eflaust tafið það og komið í veg fyrir að við höfum getað fylgt betur þeim þætti samstarfsáætlunarinnar með AGS en raun ber vitni. Því miður er það svo. Ég er sannfærður um að ef núverandi ríkisstjórn hefði tekist betur upp þar hefði útkoman á árinu 2010 verið með öðrum hætti en raun ber vitni í ríkisreikningi og lokafjárlögum.

Ég hef áhyggjur af reglulegri afkomu ríkissjóðs. Ég nefni það sérstaklega. Ég tel góða ástæðu til þess, ekki síst í ljósi umræðunnar á eldhúsdeginum, að gjalda varhuga við þeim málflutningi sem stjórnarliðar (Forseti hringir.) eða forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar höfðu í frammi þá.