140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[11:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum við 3. umr. um lokafjárlög fyrir árið 2010 og þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um það. Það er svolítið sérkennilegt að vera að ræða lokafjárlög 2010 á miðju ári 2012. Þetta er auðvitað eitt af þeim atriðum sem við verðum að breyta í framtíðinni.

Eins og allir vita er niðurstaða lokafjárlaga upphafsstaða ársins 2011 hjá viðkomandi stofnunum í hvaða rekstri sem er þannig að ekki er vitað fyrr en búið er að samþykkja lokafjárlögin hver upphafsstaða ársins 2011 er.

Mig langar að koma inn á það sem kom fram í svörum og andsvörum milli tveggja hv. þingmanna áðan.

Lagt var upp með í skýrslu fjármálaráðherra á árinu 2010 við yrðum með 5,5% í frumjöfnuði en hann varð ekki nema 3%. Árangurinn varð því helmingi meiri en lagt var upp með. Sumir hv. þingmenn geta þá sagt: Það er líka vegna óreglulegra liða eins og Íbúðalánasjóðs, sem var réttilega nefndur áðan, sem var 33 milljarðar í árslok 2010. Það er hárrétt en þá verður líka að taka tillit til pósitífra þátta sem flokkast undir óreglulega liði. Fyrst kemur upp í huga mér svokallað Avens-samkomulag, þ.e. samkomulag sem gert var við lífeyrissjóðina um að kaupa aflandskrónur af seðlabankanum í Luxemborg sem hafði jákvæð áhrif á hina svokölluðu óreglulegu liði.

Það sem ég ætlaði helst að gera að umtalsefni í ræðu minni er að í fjárlögum fyrir árið 2010 var gert ráð fyrir 98,8 milljarða halla en niðurstaðan varð 123,3 milljarðar sem er mun verri afkoma en reiknað var með. Það sem er líka áhugavert að staldra við og mikilvægt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir er að í fjárlögum ársins 2010 var gert ráð fyrir því að útgjöld ríkisins yrðu 560 milljarðar kr. Frá fyrra ári voru fluttir 18,6 milljarðar og í fjáraukalögunum sem voru pósitíf upp á 920 milljónir. Í lokafjárlögunum eru lagðar til breytingar upp á sambærilega upphæð, um 877 millj. kr., en niðurstaða ríkisreiknings eru tæpir 602 milljarðar. Það er gríðarlega mikill munur á því sem var gert ráð fyrir í fjárlögum og niðurstöðum ríkisreiknings. Hvergi innan OECD-ríkjanna að einu landi undanskildu er svo mikill munur á því sem sett er fram í fjárlögum og síðan niðurstöðu ríkisreiknings. Það er umhugsunarefni fyrir okkur í umræðunni um fjárlög að það skeiki um 40 milljörðum. Þá þurfum við að staldra við. Hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd gera sér grein fyrir stöðunni. Við erum núna að færa á milli fjárheimildir upp á 18 milljarða frá árinu 2009.

Það er oft sagt að stofnanir eigi fé í hlöðu þegar þær eiga uppsafnaða rekstrarafkomu sem þýðir á mæltu máli að hægt er að milda niðurskurð þeirra. Forstöðumenn þessara stofnana geta því gengið á uppsafnaðan höfuðstól og þurfa þar af leiðandi ekki að skera eins mikið niður og ganga þannig á höfuðstólinn. Það segir okkur ekkert annað en að eftir því sem árin líða lækka þessar tölur. Þá vitum við í raun og veru hvað er umfram þörf og hvað er hægt að skera niður í því kerfi sem við erum að reka í dag miðað við þau sérstöku fjárlög sem við erum að fjalla um. Það liggur fyrir að þegar þessar fjárheimildir minnka og höfuðstólarnir lækka þarf að skera meira niður en við höfum gert. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því.

Ég hef líka komið inn á það að stærsti einstaki liðurinn í neikvæðri afkomu ríkissjóðs er fjárhæð sem var sett inn í Íbúðalánasjóð upp á 33 milljarða. Væntanlega er aftur þörf á að fé verði lagt inn í Íbúðalánasjóð fyrir árið 2012. Það er svo sem ekkert að fara frá okkur. Hin svokallaða 110%-leið hefur gengið hægt, það þarf enn meira fjármagn.

Í fjárlögum 2012 eru líka aðrir liðir sem geta vegið þungt eins og niðurstaðan hvað varðar Sparisjóð Keflavíkur. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því verkefni sem er fram undan til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum.

Ég vil aðeins koma inn á eitt í þessum lokafjárlögum sem pirrar mig sérstaklega mikið. Þó að það sé margt sem ég hef athugasemdir við þá er þar ein færsla eða ein tillaga sem fer afskaplega í taugarnar á mér. Það er ráðstöfun á 28 millj. kr. frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þó svo að sú tala sé mjög lág í samhenginu þegar menn fjalla um 600 milljarða ríkisstyrk pirrar það mig að viðkomandi fagráðuneyti skuli sækja um heimild hjá þinginu til að ráðstafa þessum 28 milljónum, sem eru vaxtatekjur af reikningi sem ráðuneytið var með, þegar það er í raun búið að ráðstafa þeim. Núna fyrst, á miðju ári 2012, er sótt um heimild hjá þinginu til að ráðstafa þessum 28 milljónum. Þetta eru algerlega óþolandi vinnubrögð. Ég vænti þess að þetta muni verða í síðasta sinn sem svona verður gengið fram af hálfu framkvæmdarvaldsins, að sækja um fjárveitingar í lokafjárlögum. Þetta staðfestir það sem margoft hefur verið sagt og rætt í hv. fjárlaganefnd og í þingsölum — það er ekki hægt og það á ekki að líðast að lokafjárlög séu eins konar viðbótarfjáraukalög. Þetta er óþolandi. Auðvitað á að sækja um fjárveitingar annaðhvort í fjárlögum eða fjáraukalögum þannig að efnisleg umræða verði um þá fjárveitingu sem sótt er um. Þó að þessi upphæð sé lág eru margar stofnanir sem gætu örugglega nýtt hana til þeirra þörfu verka sem bíða.

Ég vil líka koma því að að hv. fjárlaganefnd vandaði töluvert vinnu sína við það frumvarp sem nú er til umfjöllunar og afgreiðslu í þinginu þó að auðvitað megi alltaf gera betur, ég er ekki að halda öðru fram. Skipaður var undirhópur í fjárlaganefnd og unnið mjög faglega. Það er ástæða þess að sá liður sem ég var að tala um kom í ljós. Við gaumgæfilega skoðun og úttekt hv. fjárlaganefndar fannst þessi upphæð, annars hefðum við aldrei, a.m.k. ekki ég, rekið augun í hana. Við fengum skýringar og sendum fyrirspurnir til fagráðuneytanna um það sem okkur fannst stangast á. Sérstaklega voru tilfærslur á heimildum skoðaðar, þ.e. 10% reglan og hins vegar að safna megi 4% á ári og hæst 10%. Haldinn var fundur með fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun þar sem farið var yfir þessa lista og var gagnlegt fyrir vinnu nefndarinnar.

Ástæða er til að þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir það hvernig staðið var að þessari vinnu og allri nefndinni sem tók þátt í henni, sérstaklega undirhópnum sem undirbjó umræður í nefnd. Það tel ég að hafi verið mikilvægt skref í því að vanda betur þá vinnu sem fer fram í fjárlaganefnd, hvort heldur sem það er yfirferð lokafjárlaga, fjárlaga eða framkvæmd fjárlaga.

Eitt sem hefur töluvert verið rætt um og kemur fram eru markaðar tekjur. Nú er verið að vinna með þær í hv. fjárlaganefnd í nánu samstarfi við fjármálaráðuneytið sem hefur borið hitann og þungann af þeirri vinnu. Ég er mjög ánægður með kaflann sem fjármálaráðuneytið undir forustu hæstv. fjármálaráðherra hefur skrifað í lokafjárlögin fyrir árið 2010 um hvernig við getum breytt þessu og kemur það mjög skýrt fram. Ég er ánægður með að akkúrat sé hnykkt á þeim atriðum sem mikilvægt er að breyta eins og oft hefur verið rætt í þinginu en ekki komið í verk. Vonandi verður því breytt fyrir næstu fjárlög til að sanngirni gæti.

Þær stofnanir sem hafa haft markaðar tekjur hafa forskot, ef ég má nota það orð, því að þær búa ekki í sama umhverfi og aðrar stofnanir. Tilhneigingin er sú að ef vöxtur er í mörkuðum tekjum vex stofnunin en ef tekjustofninn dregst saman þarf þingið að veita aukafjármagn til að reksturinn gangi.

Það er líka mikilvægt að skoða sértekjur stofnana. Það höfum við rætt í hv. fjárlaganefnd og er ekki neinn ágreiningur um það. Að mínu mati er mikilvægt að fara gaumgæfilega yfir það fyrir næstu fjárlagagerð. Ég verð að viðurkenna að ég hrökk við þegar ég las skýrslu Ríkisendurskoðunar og þær ábendingar að í fjárlögum fyrir árið 2010 væru 70 fjárlagaliðir með sértekjur í lokafjárlögum og fjárlögum 2010 sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum 2010 — 70 stofnanir höfðu bæst við sem ekki var gert ráð fyrir. Þetta þýðir að þær stofnanir sem hafa sértekjur og fá að nýta þær til reksturs hafa ekki þann fjárlagaramma sem þingið samþykkir á hverjum tíma. Ef tekið hefði verið tillit til hvernig þetta gerist hefði umræðan verið önnur og þingmenn gert sér betur grein fyrir því hvert umfang einstakra fagstofnana væri í rekstri. Þetta er alvarleg ábending og full ástæða fyrir okkur að skoða þetta betur því að með sértekjum er oft og tíðum verið að velta kostnaði við alls kyns starfsemi stofnananna yfir á fjölskyldur eða fyrirtæki. Þá staldrar maður við mismuninn á stofnunum því að sumar hafa möguleika á að ná sér í sértekjur en aðrar ekki.

Ef þetta er sett í samhengi, til að það skýrist betur, þá getum við séð fyrir okkur Landspítalann. Nú greiðir fólk fyrir komu sína þangað, hvort sem það fer í einhverjar rannsóknir eða til læknis, ákveðin komugjöld sem hefur verið reynt að halda í lágmarki. Við gætum t.d. séð fyrir hvað það þýddi ef Landspítalinn tæki þá ákvörðun, með leyfi ráðuneytisins, að hækka komugjöldin mjög mikið. Viðbrögðin í þjóðfélaginu við þeirri ákvörðun, hvort heldur sem væri á þingi eða almennt í þjóðfélaginu, yrðu auðvitað mjög sterk. Þetta er möguleiki sem spítalinn hefur til að ná sér í sértekjur en nýtir ekki vegna stöðu sinnar og kröfu samfélagsins um nánast ókeypis heilbrigðisþjónustu.

Síðan eru aðrar stofnanir og ég get nefnt Umferðarstofu. Um síðustu áramót hækkuðu ökuritaskífur þar um rúm 100%, úr 8.600 kr. upp í kringum 17 þús. kr. Þessar sértekjur renna beint til stofnunarinnar. Það er auðvitað ekkert réttlæti í því að þær stofnanir sem geta gert þetta fái leyfi hjá ráðuneytunum til þess og velti kostnaðinum yfir á fjölskyldurnar eða atvinnulífið og nái sér þannig í sértekjur og þurfi þar af leiðandi að skera minna niður. Þetta er nokkuð sem verður að taka fastari tökum og er verið að vinna að í hv. fjárlaganefnd.

Svo er Hafrannsóknastofnun alveg sérkapítuli og ég þyrfti að halda eins og hálftímaræðu um hvernig þetta er á þeim bænum því að sú stofnun nær sér í sértekjur sem eru ekki á fjárlögum og ekki bara það heldur nær hún í sértekjurnar hjá fagráðuneyti sem hefur ekki heimild samkvæmt fjárlögum til að úthluta þeim. Það er mikið umhugsunarefni hvernig þetta hefur verið gert. Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að á þessu verði tekið fastari tökum en verið hefur. Það hefur eitthvað fikrast í rétta átt en betur má ef duga skal. Það sem eftir stendur er að sértekjur mismuna stofnunum.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka hv. fjárlaganefnd og sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir þá vinnu sem fór fram í kringum þessi lokafjárlög og líka nefndarriturum og starfsfólki fjárlaganefndar fyrir þeirra framlag.