140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[11:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum slóðum og félagar mínir í fjárlaganefnd, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Ég vil fjalla um orð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í eldhúsdagsumræðunum þar sem hann hélt því fram fullum fetum að náðst hefði umtalsverður árangur í fjármálum ríkissjóðs. Hann nefndi þar hagvöxt sérstaklega en nefndi ekki, væntanlega af ásettu ráði, hina neikvæðu þætti eins og verðbólguna sem rokið hefur upp úr öllu valdi og gert það að verkum að Seðlabankinn hefur neyðst til að hækka stýrivexti. Það hefur skapað umtalsverðan vanda, ekki bara fyrir fólk og fyrirtæki heldur líka og það hækkar þá vexti sem Seðlabankinn þarf að greiða til krónu- og jöklabréfaeigenda.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta sérstaklega er að ríkisstjórnin setti sér markmið. Þau markmið komu fram í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013. Þar leggur ríkisstjórnin línurnar fyrir þetta kjörtímabil. Í þeirri umræðu nefndum við sérstaklega að þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér væru frekar lágstemmd og að það ætti að vera mjög auðvelt að ná þeim.

Fjármálaráðuneytið gaf út þjóðhagsspá af því tilefni. Í þeirri þjóðhagsspá kom fram að á árinu 2011 ætti að vera búið að ná vísitölu neysluverðs niður í 1,7%, verðbólgunni, og á árinu 2012 ætti að vera búið að ná vísitölunni niður í 2,1%. Frá árinu 2010 hefur að meðaltali verið 4% verðbólga og á síðustu 12 mánuðum hefur verðbólga á Íslandi mælst um 6,4%. Þetta stafar kannski af því að hagvöxturinn á Íslandi, sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nefndi sem dæmi um góðan árangur, er fyrst og fremst vegna einkaneyslu. Hann er ekki til kominn vegna arðsamra framkvæmda sem stjórnvöld stefndu að mundi verða að veruleika, og þá nefni ég hinn svokallaða stöðugleikasáttmála. Eins og alþjóð veit eru aðilar vinnumarkaðarins afar ósáttir og hafa meira og minna sagt sig frá þessum svokallaða stöðugleikasáttmála. Í skýrslu fjármálaráðherra kom fram að stjórnvöld mundu kappkosta að ná víðtækri samstöðu um markmið áætlunarinnar við aðila vinnumarkaðarins og hefur það heldur betur mistekist.

Það átti líka að kappkosta samstarf við sveitarfélög í landinu og talað var um að ríki og sveitarfélög ættu með sér náið samstarf og að áætlanir af útgerð sveitarfélaga tækju mið af markmiðum um þjóðhagslegan stöðugleika. Sveitarfélögin í landinu hafa unnið innan mjög þétts og skýrs ramma og nú er að nást umtalsverður árangur í fjárhag sveitarfélaga á landinu en hann var vissulega bágborinn víða um land. Samstarfið endurspeglast kannski helst í því að sveitarfélögin í landinu hafa ítrekað haldið borgarafundi þar sem aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur verið mótmælt. Þá er einnig talað um samstarf við hagsmunaaðila en benda má á að Hagsmunasamtök heimilanna töldu sig tilneydd að lýsa yfir stríði við ríkisstjórn Íslands, hvorki meira né minna.

Mestu öfugmælin í þessari skýrslu og markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér eru kannski þau að fram kemur að stjórnvöld muni leggja áherslu á að skapa atvinnulífinu þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að verja og styðja við atvinnustarfsemi í landinu. Ég held að nýleg dæmi innan sjávarútvegsins, sem eru nú hvorki meira né minna en grunnatvinnuvegur þjóðarinnar og helsta tekjuöflun ríkissjóðs, sýni að þar er allt í loft upp, því miður.

Hér ræðum við nefndarálit um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2010. Ég hef talað um þau markmið sem fram komu í skýrslu fjármálaráðherra en lokafjárlög fyrir árið 2010 eru eitthvert sterkasta dæmið um að ríkisstjórnin nær ekki þeim markmiðum sem hún ætlar sér að ná. Skapast hefur góð og mikil sátt um það í fjárlaganefnd um að auka aga í ríkisfjármálum, sem ég vona að leiði af sér betri fjárreiðulög. Ég held að það sé eitthvert brýnasta verkefnið sem Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir. Það er ágætt að taka það með í reikninginn að rétt fyrir hrun, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þegar menn vissu að það stefndi í óefni voru ríkisútgjöldin aukin um 20%. Hv. þm. Bjarni Harðarson var þá fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd. Hann lagði til að mikill agi og ráðdeildarsemi yrði viðhöfð í þeim fjárlögum. Það var erfitt að setja fram slíka ósk vegna þess að þá voru til miklir fjármunir í ríkiskassanum og það átti einhvern veginn að gera allt fyrir alla. En svo kom hrunið og staða ríkissjóðs versnaði til mikilla muna, fór alveg niður í 215 milljarða eða þar um bil.

Í fjárlögum ársins 2010 var gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ársins yrði neikvæður um 98,8 milljarða kr., hvorki meira né minna. Það er jafnvel meira en Ísland greiðir í vexti í dag af þeim lánum sem við höfum neyðst til að taka vegna hrunsins. Þegar uppgjörið er skoðað reyndist þessi halli vera neikvæður um 123 milljarða kr., 25 milljörðum meiri en hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, taldi að hann mundi verða. Hversu oft höfum við ekki heyrt að það sé frábær árangur og eitthvað til að stæra sig af? En reyndin er einfaldlega önnur.

Við áttum ágætisfund í fjárlaganefnd með skrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem unnið er að nýjum fjárreiðulögum. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að fjárlaganefnd komi að þeirri vinnu. Ýmislegt þarf að laga, sérstaklega varðandi hinar mörkuðu tekjur og eins það að margir fjárlagaliðir fara ítrekað fram úr fjárlögum. Það liggur við að strax í janúarbyrjun séum við farin að ræða fjáraukalög næsta árs. Það hefur Ríkisendurskoðun gagnrýnt harðlega og nefnt að hér sé varasjóður ef upp koma einhver ófyrirséð atvik, en einhvern veginn hefur myndast sú venja að halda áfram fjárútlátum. Íslendingar hafa ekki efni á því og ég held að rétt sé að líta til Svíþjóðar sem er með eigin gjaldmiðil og hefur tekist að halda atvinnuástandinu góðu með miklum aga í fjármálum.

Íslendingar standa sig næstverst á meðal ríkja OECD þegar kemur að muninum á fjárlögum og ríkisreikningi, eins og fram kom á fundinum í gær, aðeins Ungverjar standa sig verr. Ég held að það sé lýsandi fyrir þann vanda sem Íslendingar standa frammi fyrir og þess vegna ítreka ég þau orð mín að stærsta og mikilvægasta skrefið sem Alþingi Íslendinga þarf að taka er að ná fram aga í ríkisfjármálum. Ég lagði það til við 2. umr. lokafjárlaga að hv. fjárlaganefnd mundi sameinast um að leggja fram slíkt frumvarp. Því miður var ekki tekið nægilega vel í þá beiðni en ég fagna því þó að það er áhugi fyrir því að fjárlaganefndin hitti þá sem standa að þessum breytingum og geta komið sjónarmiðum sínum þar á framfæri. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum, áður en nýju fjárreiðulögin verða lögð fram, að koma inn þeim skilningi sem ég tel að sé að myndast í fjárlaganefnd, bæði hjá stjórn og stjórnarandstöðu.

Í umræðum áðan var rætt um krónuna en þó fyrst og fremst um þann vanda sem Grikkland stendur frammi fyrir. Hv. þm. Magnús Orri Schram hélt því fram að vandi Grikkja væri ekki evran heldur hinn mikli skuldavandi. Sami þingmaður og félagar hans í Samfylkingunni hafa haldið því fram að vandi Íslands snúi einmitt að krónunni. Ef vandi Grikklands snýr að auknum skuldum má það sama segja um Ísland. Vandi Íslands snýr nákvæmlega að skuldavanda og þeirri óreiðu sem verið hefur á ríkissjóði undanfarin ár.

Munurinn á Grikklandi og Íslandi er að Íslendingar hafa sjálfstæðan gjaldmiðil sem hefur vissulega hjálpað Íslendingum til að komast fyrr út úr kreppunni en ella. Okkur hefur fleytt fram, hagur okkar hefur vænkast jafnvel þó að það sé ekki í þeim mæli sem skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, kveður á um. Þess vegna tel ég að árangurinn sé mun minni.

Ég hóf umfjöllun mína á að nefna að ummæli hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, ætti ekki við rök að styðjast. Ég hef þegar nefnt að ummæli hans um aukinn hagvöxt standist ekki ítarlega skoðun. Mig langar í því sambandi að benda á umfjöllun sem var á Bloomberg-fréttastofunni um daginn þar sem vakin var athygli á vanda Íslands og þeirri fasteignabólu sem er að myndast á Íslandi. Þessi fasteignabóla myndast vegna þess að hagvöxtur er drifinn áfram af einkaneyslu en ekki framkvæmdum eins og hann ætti að gera. Ég held að við Íslendingar ættum að staldra aðeins við og skoða hver staðan er í raun og árangurinn sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fullyrðir að náðst hafi á Íslandi.

Að lokum vil ég þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir þá vinnu sem fram fór varðandi þessi lokafjárlög og vonast til að þar verði áframhaldandi gott samstarf.