140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að sem stjórnarliði og formaður fjárlaganefndar er ég stolt af þeim árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálum frá hruni. En ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa talað í dag að við þurfum að halda áfram að sýna aga og auka aga í ríkisfjármálum til að tryggja að við rekum ríkissjóð með afgangi, getum nýtt afganginn til að greiða niður skuldir, til að draga úr vaxtakostnaði ríkissjóðs sem í dag tekur allt of stóran hluta af þeim tekjum sem aflað er, í stað þess að þær tekjur séu nýttar til að greiða fyrir velferð, löggæslu og önnur brýn samfélagsmálefni.

Ég vil þakka nefndarmönnum í hv. fjárlaganefnd fyrir mjög gott samstarf og vilja til að nefndin með samstilltum hætti sýni vald sitt og taki eftirlitshlutverk sitt og ábyrgð sína í ríkisfjármálum alvarlega. Ég vil þakka starfsmönnum nefndarinnar sem eru ótrúlegir vinnuhestar og hjálplegir í einu og öllu. Einnig vil ég vegna vinnu við frumvarp til lokafjárlaga þakka starfsmönnum Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis sem voru mjög samstarfsfúsir í miklum lúslestri okkar á þessu ágæta frumvarpi. Þessi vinna gefur góð fyrirheit um samvinnu við vinnslu fjáraukalaga fyrir árið 2012, fjárlög ársins 2013, lokafjárlög ársins 2011 en þetta eru verkefni sem nefndin mun takast á við á þessu ári, vinnu við frumvarp nefndarinnar um markaðar tekjur sem hv. þingmenn hafa minnst á í umræðunni, herra forseti, og skiptir miklu máli fyrir rekstur ríkissjóðs sem og vinnu vegna frumvarps um ný lög um fjárreiður ríkisins.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um lokafjárlög ársins 2010. Það er tímabært að koma því máli til atkvæðagreiðslu og ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem unnu að mjög faglegri og vandaðri vinnu við frumvarpið.