140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

tollalög.

367. mál
[13:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða frumvarp til laga um breytingu á tollalögunum frá 2005, ekki síst vegna þeirrar breytingartillögu sem liggur fyrir af hálfu fjögurra þingmanna frá vinstri flokkunum. Ég vil styðja þessa tillögu því að ég held að hún sýni fram á það að ferðaþjónustan er mjög vaxandi og er að verða mjög fjölbreytt í eðli sínu. Ein hlið fjölbreytninnar snýr að því hvernig skemmtiferðaskipin koma hingað til lands. Ég ætla ekki að draga dul á það að þessi breyting hefði meðal annars mikil áhrif á okkur Hafnfirðinga og það hefði mikla hagsmuni í för með sér fyrir okkur ef skemmtiferðaskip gæti komið til dæmis til Hafnarfjarðar og siglt síðan áfram til annarra hafna víða um landið. Að vissu leyti væri verið að taka upp strandsiglingar en sem stæðu bara yfir tímabundið. Það sem gerist líka er að við mundum fá farþega erlendis frá sem færu um borð á Íslandi en ekki einhvers staðar annars staðar.

Með vaxandi ferðaþjónustu erum við að sjá alls konar anga þróast sem við á þingi verðum að vera reiðubúin til að taka á, opna fyrir en einmitt ekki að loka á, við eigum miklu frekar að vera vakandi fyrir samkeppnisstöðu okkar í þessari atvinnugrein eins og mörgum öðrum. Það væri nú fínt ef allir í stjórnarliðinu væru líka vakandi á þeim vettvangi, þar þurfum við að halda vöku okkar til að laða að meiri þjónustu, auka atvinnu o.s.frv. Ég vil því taka undir þá breytingartillögu sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ræddi hér áðan.

Síðan verð ég líka að segja að guð láti gott á vita að sjá orðið tollfrelsi í tillögu frá vinstri mönnum. Mér finnst það afar jákvætt og ég hefði gjarnan viljað sjá það tekið yfir lengra bil, ekki síst í ljósi þess að við erum að tala um ferðaþjónustuna og það er einkum þaðan sem heyrst hefur gagnrýni á lítið tollfrelsi, t.d. á landbúnaðarvörum og ýmsum öðrum vörum sem ferðamenn leita mikið í þegar þeir koma hingað. Ég er sannfærð um að það sé til góðs og sagan sýnir það. Hvað gerðist þegar við minnkuðum og afnámum tolla á grænmeti í samræmi við alþjóðasamninga? Við breyttum náttúrlega styrkjunum og settum þá yfir í grænmetið og það sem gerðist var að íslenskir grænmetisbændur sýndu það og sönnuðu að þeir eru miklu meira en samkeppnishæfir við erlendan markað. Þeir juku markaðshlutdeild sína úr 80% í 90% þegar tollfrelsi var aukið á Íslandi. Þetta vonast ég til að við getum rætt enn frekar þegar við ræðum tollfrelsi, ekki eingöngu það sem tengist mjög afmörkuðu sviði skemmtiferðaskipa, en þá breytingu styð ég eins og ég sagði áðan. Ég vil gjarnan sjá aukið tollfrelsi, ekki síst á sviði landbúnaðarvara. Þetta er ekki eitthvað sem er tabú og má ekki vera tabú að ræða á Alþingi því að við höfum ýmsar aðrar leiðir til að styrkja íslenskan landbúnað eins og sagan sýnir. Ég held að það sé ein mesta áskorunin fyrir okkur á þingi þegar kemur að umræðunni um tollfrelsi að þora að ræða tollfrelsið öfgalaust og hvaða áhrif það hefur á íslenskan landbúnað og íslenska menningu, íslenska matarmenningu. Ég er sannfærð um það, ekki síst í ljósi mikilla gæða íslensks landbúnaðar, að afnám þeirra mestu hafta sem nú eru í landinu mundi verða til farsældar fyrir íslenskt samfélag og þar með talið íslenska bændur.

Þess vegna fagna ég því að orðið tollfrelsi komi fram í þeirri tillögu vinstri manna sem hér liggur fyrir. Ég styð þá tillögu í ljósi reynslunnar að það er ætíð til hagsbóta að hafa frelsið sem mest.