140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 20/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

610. mál
[14:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér mál um matsfyrirtæki eins og ekkert hafi orðið hrun á Íslandi. — Ég vildi gjarnan að hv. framsögumaður hlýddi á mál mitt. — Þannig er að bankarnir á Íslandi uxu svona mikið vegna þess að þeir fengu lánshæfismat „þrefalt-A“ frá bandarískum lánshæfisfyrirtækjum og hér er sagt að matsfyrirtæki sem skráð eru innan Evrópusambandsins verði af sambærilegum gæðum og matsfyrirtækin lúta ströngustu reglum. Það er sem sagt verið að vísa í þessi matsfyrirtæki í Bandaríkjunum sem gáfu bönkunum íslensku AAA sem varð til þess að þeir fengu óhemjufé alls staðar úr heiminum, sérstaklega frá Þýskalandi, Austurríki og Evrópusambandinu, vegna þess að þeir voru með AAA mat.

Ég segi að mat matsfyrirtækjanna á bönkunum á Íslandi hafi haft í för með sér ákveðinn þátt í hruninu, því að bankarnir hefðu aldrei fengið þessi lán nema af því að þeir fengu svona gott mat og ef þeir hefðu ekki fengið lánin hefðu þeir aldrei vaxið eins og þeir gerðu. Þá hefði sennilega ekki orðið hrun því að vandamálið var ofvöxtur og alveg sérstaklega það sem ég hef margoft nefnt sem er raðeignarhald og krosseignarhald þar sem peningar, miklir peningar, milljarðar, haugur af milljörðum, fóru hring eftir hring og juku eigið fé og plötuðu matsfyrirtækin.

Þetta eru nú öll gæðin sem Evrópusambandið er að vísa til. Það stendur hér í þingsályktunartillögunni, með leyfi frú forseta:

„Markmið reglugerðarinnar er að setja reglur sem eiga að tryggja að öll lánshæfismöt sem gefin eru út af matsfyrirtækjum sem eru skráð innan Evrópusambandsins séu af sambærilegum gæðum og unnin af matsfyrirtækjum sem lúta ströngustu reglum.“

Það var nú ekki meira virði en þetta. Ég tel að matsfyrirtækin með sinni flausturslegu vinnu hafi á sinn hátt átt þátt í hruninu á Íslandi. Þess vegna legg ég til að menn skoði þessa reglugerð með eilítið meiri meðvitund en nefndin virðist hafa gert.