140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[14:33]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fínu fyrirspurn. Í vinnslu málsins fyrir nefndinni kom í ljós að til dæmis í Ölfushreppi, þar sem þessi framkvæmd hefur verið nokkuð farsæl að mínu mati, eru hesthús í tómstundaskyni sett í a-flokk, þ.e. þau bera lægri fasteignagjöld en önnur og sambærileg hesthús á bújörðum, en rekstrarleyfisskyld starfsemi, til dæmis stór hestaleiga eins og er í nefndu sveitarfélagi, er flokkuð með annarri atvinnustarfsemi. Verið er að leggja það til hér að farið verði ofan í saumana á þessu í sérstökum starfshópi. Mér fyndist þá eðlilegra að menn mundu fyrst kanna það hvort hægt væri að skipta þessu með þeim hætti, kanna þau mörk sem hv. þingmaður dregur hér upp, fara rækilega ofan í saumana á þeim og síðan yrði lögunum breytt en að menn setji ekki öll hesthús undir sama flokk fasteignagjalda, a-flokk, kanni svo í framhaldinu af því hvort hægt sé að framkvæma þessa skiptingu. Það finnst mér öfugt verklag í málinu.