140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[15:18]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst fagna mjög eindregið þeim breytingartillögum sem nefndin leggur til á barnalögunum.

Við breytinguna árið 2006, sem framsögumaður nefndi áðan, greiddi ég og nokkrir aðrir þingmenn atkvæði með því að þá yrði sett í lögin dómaraheimild til að úrskurða um sameiginlega forsjá. Það hefur verið deilt mjög um þessa dómaraheimild eins og framsögumaður rakti. Auðvitað sýnist sitt hverjum og má lengi rökræða um það, en rökræðan undanfarin ár hefur skilað nokkuð góðri samstöðu um þetta.

Það er ánægjulegt að hér skuli vera lögð til dómaraheimild til að úrskurða um sameiginlega forsjá rétt eins og um lögheimili með áherslu á sáttaleiðina og samninga sem meginreglu en dómaraheimildina sem úrskurð í undantekningartilfellum og ágreiningsmálum. Ég held að þetta séu mjög jákvæðar breytingar og ég fagna því eindregið að þær séu komnar fram.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um var hugmynd Félags um foreldrajafnrétti að breytingartillögu við þetta frumvarp sem var send í dag til þingmanna — félagið hefur beitt sér fyrir þessu máli með jákvæðum og málefnalegum hætti á síðustu missirum og árum, þá undir öðru nafni — þar sem lagt er til að eftirfarandi breyting fari inn í frumvarpið og lagabálkinn. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Foreldrar skulu skipta með sér kostnaði vegna umgengni nema annað sé ákveðið með samningi, samanber 3. mgr., eða úrskurði, samanber 1. mgr. 47. gr.“

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta hafi verið rætt og hvort það komi til greina að skoða þessa breytingu í nefnd á milli 2. og 3. umr.