140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[15:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka nefndarmönnum í velferðarnefnd fyrir mjög gott samstarf í þessu máli og framsögumanni málsins sérstaklega fyrir hans vönduðu vinnu og vinnubrögð við málið.

Hér hefur verið farið ítarlega yfir málið og ég ætla því að velja einungis örfá atriði sem mig langar til að ræða. Í fyrsta lagi langaði mig til að fá að lesa hér upp úr frumvarpinu vegna þess að mér finnst það skipta mjög miklu máli, eins og hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna, að það séu réttindi barnsins og hagur barnsins sem alltaf vegur mest. Í 1. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi.“

Og það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang.

Síðan kemur aðeins síðar í lagatextanum, sem er 4. gr. í þessu frumvarpi, Almennt um inntak forsjár. Þar stendur:

„Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það.

Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.“

Það sem verður stöðugt að hafa í huga þegar við ræðum barnalög er það sem er barninu fyrir bestu og að barnið á rétt á umgengni og forsjá beggja foreldra sinna í öllum megindráttum.

Það sem mig langar fyrst og fremst að tala um er ráðgjöf og sáttameðferð sem þarf að eiga sér stað þegar til skilnaðar eða sambúðarslita kemur þar sem börn eru til staðar. Og í samræmi við markmið þessara laga þarf stöðugt að hafa í huga að það hlýtur að vera barni fyrir bestu að sem mest og best sátt sé milli foreldra þess þó að þeir hafi valið það að búa ekki saman. Það er verulega til bóta að í þessu frumvarpi er lagt til tvískipt ráðgjafar- og sáttaferli. Í fyrsta lagi er lagt til að sýslumaður geti boðið aðilum sérfræðiráðgjöf og í öðru lagi er í raun og veru lögfest skylda foreldra til að undirgangast sáttameðferð í tilteknum málum. Ég held að þetta skipti mjög miklu máli. Í raun þyrftum við jafnvel að ganga enn lengra og það kemur fram í nefndarálitinu að styrkja þyrfti almenna ráðgjöf til foreldra, auka foreldrafræðslu og styrkja ráðgjöf og sáttaumleitun.

Mig langar í því samhengi að benda á eða notfæra mér hér mjög vandaða umsögn Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd sem hefur rannsakað þetta mál mjög vel og byggir umsögn sína bæði á íslenskum og erlendum rannsóknum. Þar er meðal annars talað um að foreldrar séu oft og tíðum ekkert allt of vel að sér í því hvað hugtök eins og forsjá, samvistir og jöfn búseta merkja. Því sé í raun mikil þörf á þjónustu og stuðningi í þessum málaflokki. Þetta þarf að vera mjög víðtæk ráðgjöf, allt frá almennri fræðslu og lágmarksupplýsingum til markvissrar ráðgjafar og frá hinu almenna og auðvelda til hins sértæka og erfiða.

Samkvæmt mörgum rannsóknum sem hafa verið gerðar í nágrannalöndum okkar er reynsla af því að vera með samtöl þar sem aðilum sem hafa ákveði að slíta samvistum eða slíta hjónabandi sínu gefst færi á að ræða almennt um skilnað, praktískar ákvarðanir og að fara yfir stöðuna í heild. Oftast dugar eitt slíkt viðtal en stundum þurfa þau að vera aðeins fleiri. Það er ljóst að slík samvinnusamtöl geta haft mjög öflugt forvarnagildi því að þar er tekið á málum jafnt tilfinningalegum og praktískum, sem annars gætu komið upp síðar og eru þá torleystari. Það er nefnilega þannig að það er ekki sjálfgefið þegar fullorðið fólk ákveður að slíta sambúð sinni að það hafi endilega hugsað til enda hvað það í raun og veru þýðir að ala upp börn á tveimur heimilum. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Síðan mætti, eins og fram kemur í umsögninni sem ég vitnaði hér til, hugsa sér einhvers konar B-leið sem væri sáttamiðlun sem felst meðal annars í miðlun sjónarmiða án þess að fram hafi komið opinn ágreiningur þar sem verið er að vinna með praktísk mál eins og forsjá, framfærslu, búsetu, umgengni og jafnvel gerðir skriflegir samningar þar um.

Oft og tíðum getur slík sáttamiðlun verið tilfinningalegur ráðgjafar- og meðferðarþáttur þar sem væri ákveðin úrvinnsla tilfinningalegra mála og bara almenn fjölskyldusátt.

Því miður er staðan stundum orðin þannig að kominn er upp ágreiningur á milli fyrrum sambúðarfólks og foreldra. Þá þarf að vera til sérstök ágreiningsúrlausn sem stungið er upp á í frumvarpinu að sé í tengslum við sýslumannsembættin. Að sjálfsögðu gæti hún einnig verið tengd félagsþjónustu sveitarfélaganna og þá skiptir mjög miklu máli að þar sé fagfólk sem kann þetta, hefur færni til að ráða við átök og ágreining.

Í nefndaráliti meiri hlutans er rætt um þetta, að það skipti máli að feta sig lengra í þessari ráðgjöf og samtölum áður eða um það bil sem sambúðarslit verða þannig að foreldrar geti fetað sig áfram í nýjum veruleika og áður en til mikils ágreinings er komið. Þetta held ég að skipti miklu máli. Við þurfum smám saman að koma því þannig fyrir að þetta verði eðlilegur framgangur og þá held ég að koma mætti í veg fyrir mörg mjög erfið ágreiningsmál.

Síðan langaði mig til að ræða stuttlega um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá og að það sé eðlilegur hlutur að sú heimild sé til staðar þó að megináherslan sé lögð á sáttaumleitan. Auðvitað á alltaf byrja á að reyna að ná sáttum og alltaf með það að markmiði hvað sé barninu fyrir bestu og að barnið fái sjálfsagða og eðlilega umgengni við báða foreldra sína, en þegar ekki gengur að ná sáttum þá sé þessi heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá til staðar. Að sjálfsögðu á dómari einungis að gera slíkt þegar fyrir liggur að um jafnhæfa forsjárforeldra er að ræða og ágreiningurinn er ekki svo djúpstæður að hann sé líklegur til að hafa áhrif á barnið og líklegt sé að foreldrarnir geti unnið að velferð barnsins sameiginlega. Og síðast en ekki síst að ætíð sé sá tilgangur hafður í huga að það sé barninu fyrir bestu að forsjáin sé sameiginleg. Að sjálfsögðu geta komið upp þær aðstæður að það sé alls ekki barninu fyrir bestu og ekki heillavænlegt að dæma sameiginlega forsjá og þá á sá möguleiki náttúrlega ekki vera til staðar. Nú er staðan í íslenskum rétti sú að það er meginreglan að sameiginleg forsjá sé til staðar og þetta er í raun og veru ákveðin viðbót við það, en þegar um er að ræða ofbeldi eða slíkt á möguleikinn á sameiginlegri forsjá að sjálfsögðu ekki að vera upp á borðinu.

Síðan finnst mér mjög merkilegt að við erum að setja í lög heimild dómara til að dæma um lögheimili barns. Þegar deilur eru milli foreldra um forsjá eru deilurnar ekki alltaf fyrst og fremst um forsjána, heldur miklu frekar um lögheimilið og um umgengnina. Ég held því að hér sé verið að stíga mjög merkilegt skref.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar. Ég skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara og er afar ánægð með þá vinnu sem nefndin hefur unnið í þessu máli. Ég held að við séum að stíga hér afar farsæl skref, en vil nota tækifærið og minna á að barnalögin þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Það eru ákvæði í öðrum köflum en þeim sem hér eru til umfjöllunar sem þarf að skoða, t.d. réttur forsjárlausra feðra til að höfða barnsfaðernismál og fleira. Við erum að stíga mjög merkilegt skref hvað varðar forsjá og umgengni en við þurfum að vera á tánum og vera stöðugt með þessi lög í endurskoðun.

Eins og ég hóf mál mitt vil ég enda það með því að segja að markmiðið er að barn eigi rétt á eðlilegri umgengni við báða foreldra sína og það sé ávallt að markmiðið að öll skref sem við stígum séu börnunum fyrir bestu.