140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá velferðarnefnd um frumvarp til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til tillögur að úrbótum á réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda en þær lúta fyrst og fremst að stjórnsýslu og meðferð mála fólks með kynáttunarvanda og tilhögun kynleiðréttinga og nafnbreytinga í þjóðskrá. Í frumvarpinu er kynáttunarvandi skilgreindur sem upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu. Frumvarpið tekur til málsmeðferðar lögráða einstaklinga með kynáttunarvanda. Gert er ráð fyrir að einstaklingur leiti fyrst til teymis Landspítala um kynáttunarvanda sem hefur umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð einstaklinga með kynáttunarvanda. Að 18 mánaða meðferð lokinni, þar af 12 mánaða reynslutímabili í gagnstæðu kynhlutverki, og að uppfylltum öðrum skilyrðum, getur viðkomandi sótt um staðfestingu sérfræðinefndar um kynáttunarvanda á að hann tilheyri gagnstæðu kyni og nefndin metur í kjölfarið hvort viðkomandi teljist hæfur til kynleiðréttandi aðgerðar. Eftir slíka staðfestingu nýtur einstaklingur allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér. Vert er þó að árétta að réttarstaða einstaklings sem farið hefur í kynleiðréttandi aðgerð helst óbreytt gagnvart börnum hans. Sérfræðinefndin skal einnig tilkynna Þjóðskrá Íslands um leiðrétt kyn og skal stofnunin þá upplýsa viðkomandi um skyldu hans til nafnbreytingar. Þá er viðkomandi einnig heimilt að sækja um að sér verði úthlutað nýrri kennitölu. Óski viðkomandi nýrrar kennitölu skal fyrri kennitalan vera aðgengileg þeim stjórnvöldum og öðrum aðilum sem starfs síns vegna þurfa að vita um tengsl nýju og eldri kennitölunnar.

Frumvarpið var samið af nefnd skipaðri sérfræðingum og hagsmunaaðilum. Nefndinni var falið að gera tillögur að úrbótum fyrir einstaklinga með kynáttunarvanda með hliðsjón af áliti setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4919/2007 frá 27. apríl 2009. Í álitinu kom meðal annars fram að lagaumgjörð vantaði um möguleika einstaklinga til að gangast undir kynskiptiaðgerð og um málsmeðferð og skyldur stjórnvalda í því sambandi sem og um þau réttaráhrif sem læknisfræðileg greining á kynáttunarvanda og kynskiptiaðgerðin sem slík hefðu í för með sér, m.a. með tilliti til réttar til nafnbreytinga. Víðtækt samráð var haft við hagsmunaaðila við gerð frumvarpsins og þykir nefndinni vel hafa tekist til.

Gestir nefndarinnar og umsagnaraðilar eru allir mjög jákvæðir í garð frumvarpsins og telja það mikilvæga réttarbót fyrir fólk með kynáttunarvanda. Fyrir nefndinni kom fram að með frumvarpinu væri verið að lögfesta framkvæmd sem hefði verið stunduð í 20 ár og komin væri góð reynsla á og rétt væri því að skapa framkvæmdinni skýran lagaramma. Rætt var um að mikil bót væri í því fólgin að einstaklingur gæti sótt um nafnbreytingu strax og staðfesting sérfræðinefndar lægi fyrir en þyrfti ekki að bíða eftir að fara í kynleiðréttandi aðgerð. Slíkt ferli getur tekið tíma en viðkomandi er þó frá staðfestingu búinn að vera í gagnstæðu kynhlutverki í að minnsta kosti eitt ár. Þá kom einnig fram að eins árs aðlögunartími væri hæfilegur tími og ekki væri fært að stytta hann.

Nefndin fjallaði einnig um heimild til að skipta um kennitölu. Fyrir nefndinni kom fram að ekki væri um lagalega nauðsyn að ræða þar sem kennitala væri ein og sér ekki kynbundin. Hins vegar gæti það verið mikilvægt atriði fyrir viðkomandi einstakling þar sem um nýtt upphaf væri að ræða og eldri kennitalan tengd fyrra kyni. Þá kom einnig fram að þó svo að vissir opinberir aðilar hefðu aðgang að tengslum eldri og nýrri kennitölunnar væri ekki hægt að búa til úr því lista yfir einstaklinga sem hefðu fengið skráningu á kyni sínu breytt þar sem þjóðskrá leiðréttir að öllu jöfnu töluverðan fjölda af kennitölum á hverju ári vegna mistaka við skráningu eða leiðrétts fæðingardags. Ekki verður hægt að aðgreina kennitölubreytingar vegna breyttrar skráningar á kyni frá breytingum vegna mistaka eða annarra breytinga.

Nefnd sú sem samdi frumvarpið sem hér er til umfjöllunar vakti athygli á því við velferðarráðherra og innanríkisráðherra að nauðsynlegt væri að refsiréttarnefnd tæki til athugunar hvort rétt væri að breyta ákvæðum 1. mgr. 180. gr. og 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Fyrrnefnda ákvæðið varðar bann við mismunun varðandi vörur eða þjónustu á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar. Síðarnefnda ákvæðið varðar opinberar ærumeiðingar í garð manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar. Vikið var að því hvort rétt væri að bæta orðinu kynvitund inn í upptalningu fyrrnefndra ákvæða svo tryggt væri að ákvæðin tækju einnig til einstaklinga með kynáttunarvanda. Þá vakti nefndin einnig athygli á því að nauðsynlegt væri að breyta reglugerð nr. 722/2009, um lýtalækningar sem sjúkratryggingar almannatrygginga taka til, þannig að sjúkratryggingar taki þátt í þremur aðgerðum sem telja má einstaklingum með kynáttunarvanda nauðsynlegar, þ.e. kynleiðréttandi aðgerð, brjóstnámi og háreyðingu vegna skeggvaxtar á fyrri stigum kynleiðréttingarmeðferðar. Nefndin tekur heils hugar undir þessar athugasemdir og væntir þess að breytingar á almennum hegningarlögum og reglugerð um lýtalækningar komi fram svo fljótt sem verða má eftir samþykkt frumvarpsins enda um mikilvægar og nauðsynlegar breytingar að ræða.

Nefndin telur að málið feli í sér mikla réttarbót fyrir þá einstaklinga sem frumvarpið tekur til og leggur því til að það verði samþykkt óbreytt.

Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu. Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifa sú er hér stendur, Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar, Lúðvík Geirsson, Valgerður Bjarnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Þetta er enn eitt málið sem er afgreitt í fullri einingu velferðarnefndar og er það vel, en hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem er mikilvæg réttarbót fyrir þá einstaklinga sem undir það heyra. Vona ég því að málið fái skjóta og góða meðferð innan þingsins.