140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

frumvörp um fiskveiðimálefni.

[10:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Svarið er afdráttarlaust nei. Þau tvö frumvörp sem nú eru undir, annars vegar veiðigjaldafrumvarpið og hins vegar frumvarpið um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, eru gjörólík því sem kom inn í þingið í fyrra og ég leyfði mér í fullri hógværð að kalla það bílslys. Ég segi það algjörlega skýrt að ég tel að veiðigjaldafrumvarpið sé vel unnið og ég tel að það sé fullfært til lúkningar. Það kann vel að vera að á því séu einhverjir annmarkar sem fram komi við umræðuna og þá er sjálfsagt að skoða það. En almennt er ég hlynntur því og tel að breytingarnar sem gerðar hafa verið á því séu mjög til bóta. Ég er þeirrar skoðunar, eins og til dæmis hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir lýsti yfir við eldhúsdagsumræður hér, að það eigi að setja mun hærra veiðigjald en verið hefur við lýði hingað til.

Að því er varðar hitt frumvarpið er ekki enn búið að afgreiða það úr nefnd. Ég get sagt það við hv. þingmann að eins og það lítur út núna með breytingartillögum sem ég hef séð tel ég að enn þurfi að gera á því breytingar og gæti í sjálfu sér sagt ýmislegt því til stuðnings, en ég hef hins vegar fulla trú á þeim ágætu mönnum sem í stjórnarandstöðunni eru og hafa mikið vit á sjávarútvegsmálum. Ég er þeirrar skoðunar að reyna eigi að ná sáttum, eins miklum og hægt er, milli stjórnar og stjórnarandstöðu og treysti því að sérfræðingar og reynsluboltar úr stjórnarandstöðunni liggi ekki á liði sínu við að koma fram með gagnrýni á frumvarpið á meðan það er á nefndarstigi, meðal annars til að hnoða það til meiri farsældar.

Ég er viss um að ef við gefum okkur þann tíma sem við höfum hér og ef það er vilji hjá stjórnarandstöðu, sem ég tel að sé fyrir hendi, á okkur að takast að leysa það mál þannig að menn geti gengið tiltölulega heilir frá þeim leik. Ég segi það hins vegar að ég býst við því og gef mér að LÍÚ og aðrir þeir sem eiga mikla hagsmuni undir (Forseti hringir.) verða aldrei ánægðir og það er þeirra hlutverk að (Forseti hringir.) gagnrýna. Þannig fúnkerar lýðræðið. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)