140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

frumvörp um fiskveiðimálefni.

[10:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég harma að hv. þingmaður hafi enga trú á sjálfum sér og enga trú á rökum og sannfæringargetu sinna eigin flokksmanna. Staðreyndin er þessi: Það er ekki búið að afgreiða stóra frumvarpið úr nefnd eða mér er ekki kunnugt um það. Þangað til það hefur verið gert getur hv. þingmaður engu slegið föstu um hvort hlustað verði á hann eða röksemdir flokksmanna hans (Gripið fram í.) þannig að hann getur komið hér upp eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerir alltaf, fullur af svartagalli, fullur af dómadagsbölmóði, og spáð því að hitt og þetta muni fara til fjandans. (Gripið fram í.) Það hafa þingmenn flokksins gert á síðustu árum, þeir hafa spáð þessu samfélagi fram af brúninni (Gripið fram í: Bílslys.) en staðreyndin er eigi að síður sú að þetta samfélag er á góðri leið og það er að verða betra en það var fyrir hrun. Það er að verða betra en jafnvel samfélög í nágrannalöndunum, samanber til dæmis könnun um hag barna (Gripið fram í.) sem kom út í gær af hálfu UNICEF.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi að skoða tilteknar breytingar á stóra frumvarpinu og hv. þingmaður (Forseti hringir.) veit um afstöðu mína í einu mikilvægu málefni. Hann veit það líka að utanríkisráðherra fellur sjaldan frá skoðunum sínum. (TÞH: Þú ert í frjálsu falli í góða veðrinu.)