140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

lokun útibúa Landsbankans á landsbyggðinni.

[10:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra fer með meiri hluta og hlutabréf ríkisins í Landsbanka Íslands. Við vorum stolt af því og það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar að ríkið ætti að eiga einn sterkan banka og eiga afgerandi meiri hluta í honum til þess einmitt að geta tryggt ákveðið grunnsiðferði, ákveðna þjónustu, ákveðna starfsemi sem banki verði að bera ábyrgð á. Banki er fyrst og fremst þjónustustofnun.

Nú, síðustu daga með deginum í dag, er Landsbankinn að loka fjölda útibúa sinna á Austurlandi, Vestfjörðum og Snæfellsnesi þvert ofan í gefin loforð um að efla, styrkja og bæta þjónustuna. Ég hef meira að segja heyrt að forsvarsmenn bankans hafi nýlega farið þar um héruð og lofað þar öflugri og góðri þjónustu líkt og ESB-sendiherrarnir. Ég spyr hæstv. ráðherra:

Eru þessar lokanir í samræmi við eigendastefnu ríkisins varðandi Landsbankann?

Hvað er gert ráð fyrir að Landsbankinn skili miklu í arð til ríkisins og hvað ráðgerir ríkissjóður eða ríkið að taka mikið af arðgreiðslum út úr Landsbankanum á þessu og næsta ári?

Var haft samráð og samband við (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra sem fer með ábyrgð á eigendahlutnum áður en þessar ákvarðanir voru teknar nánast fyrirvaralaust af hálfu forsvarsmanna Landsbankans?