140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

eigendastefna Landsbankans.

[10:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti Við höldum áfram að ræða aðgerðir Landsbankans. Í byrjun vikunnar tilkynnti Landsbankinn að hann ætlaði að loka útibúum og afgreiðslu á Austurlandi, Vestfjörðum og Snæfellsnesi og þannig hygðist bankinn meðal annars spara um 400 millj. kr. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að af viðbrögðum viðskiptavina að dæma kann hér að vera um skammgóðan vermi fyrir bankann að ræða. Þegar hafa tugir ef ekki hundruð einstaklinga tekið út peninga sína og flutt viðskipti sín í aðra banka og sparisjóði. Fleiri íhuga að fylgja í kjölfarið, þar á meðal lykilfyrirtæki í viðkomandi byggðarlögum. Þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins þekkja reyndar vel að borga bara og borga í sameiginlega sjóði en uppskera engan veginn í samræmi við það.

Í könnun Vífils Karlssonar á ráðstöfun opinberra fjármuna árið 2002 kom fram að 75% opinbers fjár sé ráðstafað í Reykjavík á meðan aðeins 42% er aflað þar. Aðrir landshlutar standa þannig fyrir öflun 58% opinbers fjár á meðan aðeins 25% þess er ráðstafað þar og staðan hefur svo sannarlega ekki batnað í ljósi harkalegs niðurskurðar stjórnvalda og áforma um stórhækkað veiðigjald. Stjórnvöld komast þó kannski frekar upp með misræmið þar sem erfitt er að segja sig frá skattgreiðslum en það sama á hins vegar ekki við um fjármálafyrirtæki þar sem fólk getur greitt atkvæði með fótunum. Þingmenn Vinstri grænna hafa svo sem talað digurbarkalega en það er ekki nóg að þenja sig í ræðustól Alþingis eða fjölmiðlum. Orðum verða að fylgja aðgerðir.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist standa aðgerðalaus hjá meðan stjórnendur bankans valda ríkissjóði beinlínis tjóni með því að grafa undan virði og orðspori bankans eða hyggst fjármálaráðherra eins og hún benti á áðan breyta eigendastefnu stjórnvalda þannig að jafnræði gildi hvað varðar þjónustu bankans eða ætlar fjármálaráðherra að styðja það að Alþingi setji ákvæði í frumvarp ráðherrans um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum þess efnis að væntanlegir kaupendur skuli sinna fleirum en íbúum höfuðborgarsvæðisins.