140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjald og forsendur fjárlaga.

[11:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Jú, það er rétt, það hefur komið fram í umræðum og einnig í greinargerð fjármálaráðuneytisins að veiðileyfagjaldið, eins og það er reiknað út, er sveiflukennt og stjórnast af gengi krónunnar. Þegar gengi krónunnar er lágt er útflutningurinn meiri og auðlindarentan hærri. Þetta er vel útskýrt í þeirri greinargerð sem hv. þingmaður fór yfir.

Að sama skapi snýst þetta við þegar gengið styrkist en þá um leið leggjast margir aðrir þættir með ríkisbúskapnum. Því er hægt að líta þannig á að eins og veiðigjaldið er hugsað er það sveiflujafnandi fyrir rekstur ríkissjóðs. En einmitt vegna þess að gjaldið er sveiflukennt er rétt að nýta það til sveiflujöfnunar, eins og gert er ráð fyrir í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Á þeim tímum þegar halast inn hátt veiðileyfagjald ætti að nýta þá fjármuni í að byggja upp innviði samfélagsins. Áætlanir um hvaða innviði væri best að styrkja næstu árin liggja nú fyrir. Þar er verið að tala um samgönguverkefni en líka uppbyggingu rannsóknasjóða og fleira. Það er einmitt þannig sem þjóðin ætti að nýta gjaldið af auðlind sinni; til sveiflujöfnunar og til að efla innviði landsins og efla hinar dreifðu byggðir jafnt sem höfuðborgarsvæðið.