140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í dag er á dagskrá þingsins frumvarp um veiðileyfagjald sem á að taka til 2. umr. Í morgun sat hv. atvinnuveganefnd á fundi með þeim sérfræðingum sem hún hefur fengið til starfa fyrir nefndina til að gera úttekt á áhrifum frumvarpanna. Þar kom skýrt fram mikilvægi þess að niðurstaða á heildarpakkanum lægi fyrir áður en hægt væri að gefa sér alvöruforsendur um áhrif þessara frumvarpa á íslenskan sjávarútveg og íslenskt samfélag. Það eru því forkastanleg vinnubrögð, virðulegi forseti, að ætla að taka þetta mál á dagskrá í dag. Það er í raun ekki umræðuhæft vegna þess að svo mikil vinna er augljóslega eftir af hálfu meiri hlutans við svokallað fiskveiðistjórnarfrumvarp. Mjög alvarlegar athugasemdir komu fram við það í morgun. Það er greinilegt á viðræðum í nefndinni að heilmikil vinna er eftir hjá meiri hlutanum við að koma sér niður á breytingartillögur. Það hefur einnig komið fram að þær breytingartillögur sem lagðar voru fram á fundi nefndarinnar (Forseti hringir.) í gær eða fyrradag séu ekki endilega endanlegar. Það er því ekki hægt að taka þetta mál til umræðu í dag, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og ég vil hvetja forseta til að funda með formönnum þingflokkanna og breyta dagskrá.