140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra spurði áðan: Hvað er hæfilegt veiðigjald? Svarið við þeirri spurningu er að finna í því frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu um stjórn fiskveiða. Það er auðvitað ekki hægt að svara þessari spurningu nema fyrir liggi hvernig rekstrarumhverfi sjávarútvegsins muni líta út.

Það er ljóst að með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi mun sjávarútvegurinn geta greitt veiðigjald en það er hins vegar alveg jafnljóst að ef það frumvarp sem liggur fyrir þinginu um breytingar á stjórn fiskveiða verður samþykkt í lítt breyttri mynd, eins og stefnir allt í núna miðað við þær breytingartillögur sem fyrir liggja hjá meiri hluta atvinnuveganefndar, verður geta greinarinnar til að standa undir veiðigjaldi miklu minni. Þess vegna er alveg fráleitt að byrja á því að ræða um þetta skattafrumvarp hér án þess að hafa hugmynd um hvernig rekstrarumhverfi sjávarútvegsins eigi almennt að líta út. Það er eðlileg krafa að áður en þetta frumvarp verður tekið á dagskrá og rætt og hvað þá (Forseti hringir.) tekið til afgreiðslu, sé ljóst hvernig menn sjá fyrir sér lögin um stjórn fiskveiða.