140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja, hvar í ósköpunum er hæstv. forsætisráðherra? Hæstv. forsætisráðherra kvartaði yfir því um daginn þegar hún ætlaði að flytja mál sitt að það væri enginn í þingsal. Forsætisráðherra hefur ákveðið að vera að þvælast einhvers staðar erlendis í staðinn fyrir að sinna þingstörfum og reyna að láta þingið ganga því allir vita að það er hæstv. forsætisráðherra sem heldur öllu í heljargreipum.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra standi líka að baki því að ráðherrar hennar, sem hún á að sjá til þess að mæti í sérstakar umræður, hafa ekki látið sjá sig alla þessa viku í umræðum. Hver er ástæðan fyrir því, frú forseti? Við hljótum að kalla eftir því að ráðherrar og framkvæmdarvaldið fari að sýna þjóðþinginu smávirðingu í staðinn fyrir að koma fram við þessa stofnun eins og færibandaverksmiðju, afgreiðslustofnun fyrir það fólk sem stýrir landinu. Þetta er algerlega óþolandi framkoma. En þetta höfum við séð allt kjörtímabilið og ljóst að öll þau fögru orð sem höfð voru í upphafi um breytingar á hinu og breytingar á þessu voru innantóm orð. (Forseti hringir.) Þar fer fremst í flokki hæstv. forsætisráðherra.