140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:15]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Undir liðnum um fundarstjórn forseta hafa komið upp nokkrir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna og sagt að ekki sé hægt að ræða í 2. umr. veiðigjaldafrumvarpið sem hér er á dagskrá vegna þess að hitt frumvarpið sé enn þá í nefnd. Virðulegi forseti. Ég velti upp þeirri spurningu hvort stjórnarandstaðan sé að biðja um að bæði þessi frumvörp séu rædd saman. (Gripið fram í.) Ja, hvað felst í því sem hér hefur komið fram frá stjórnarandstöðunni? Ég held að það sé full ástæða fyrir forseta Alþingis að athuga hvort hægt sé að verða við þeirri ósk stjórnarandstöðunnar um að ræða þetta saman. (Gripið fram í.) Þetta er enginn misskilningur, mér hefur heyrst að menn vilji fara hér í langar umræður, tvöfaldan tíma o.s.frv. og við megum vænta þess að nýtt málþóf hefjist.

Virðulegi forseti. Veiðigjaldafrumvarpið sem er fyrst á dagskránni hefur fengið meiri vinnu, ef svo má að orði komast, hefur verið unnið fyrr út úr nefndinni og er fullskapað til að koma hér til umræðu, málefnalegrar umræðu. (Forseti hringir.) Og það skulum við gera. Við skulum fara í gegnum þau atriði sem þarna eru og ræða þetta málefnalega. Þetta mál er tilbúið til umræðu, virðulegi forseti, og annað sem stjórnarandstaðan er að tala hér um er bara (Forseti hringir.) yfirklór til að fresta málum.