140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mér finnast þingmenn stjórnarandstöðunnar verða sér til skammar með þeim hætti sem þeir tala um hæstv. forsætisráðherra. Það er kannski þingæska og reynsluleysi hv. formanns þingflokks framsóknarmanna sem gerir það að verkum að hann virðist ekki enn eftir allnokkra dvöl í þessum sölum gera sér grein fyrir því að þau mál sem nú eru að koma til 2. umr. eru á forræði þingsins, ekki framkvæmdarvaldsins. Forræði framkvæmdarvaldsins sleppir algjörlega um leið og málið er komið í hendur þingsins og eftir það er það einfaldlega þannig að þingið ræður málunum.

Það vill svo til að hæstv. forsætisráðherra er í mikilvægum erindagjörðum erlendis, á í viðræðum við erlenda stjórnmálaleiðtoga sem meðal annars varða hagsmuni sjávarútvegs á Íslandi, bara svo að það komi fram. Það er aldeilis með ólíkindum að hv. þingmenn í þörf sinni til þess að finna eitthvað, einhverja átyllu til þess að geta haldið áfram málþófinu, ásaki forsætisráðherra (Forseti hringir.) fyrir að vera ekki viðstödd umræðu um mál sem er ekki á hennar forræði. Þar að auki situr hér starfandi forsætisráðherra sem hingað til hefur þess vegna getað tekið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) þeim glímutökum sem þarf að taka.

Ég bendi líka á það (Forseti hringir.) þegar verið er að kvarta yfir því að ráðherrar hafi ekki verið hér. Ég sat hér heilan dag undir máli sem varðaði mig, að vísu fór ég í tvo tíma með leyfi formanns (Forseti hringir.) þingflokks Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.)