140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað þannig að hv. þingmenn stjórnarflokkanna vildu að við tækum hér bara öll mál undir og ræddum þau saman. Auðvitað er það þannig og það er kannski boðskapurinn. Það tekur því ekki að taka hér mál til nefnda, það á ekkert að hlusta á alla umsagnaraðilana, það á ekkert að skoða alla þá miklu vinnu sem fólk er að leggja á sig, þann mikla kostnað sem ýmsir aðilar taka á sig til að koma með eitthvað fyrir nefndina. Á þetta er ekki hlustað.

Nefndin fékk hlutlausa sérfræðinga, þá viðurkenndustu í landinu, til að fjalla um þessi frumvörp. Gagnrýni þeirra var gríðarlega mikil. Það hefur engin leiðrétting orðið á frumvörpunum, engin, við þeirri gagnrýni þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um mikla lækkun á veiðigjöldum. Það er bara ekki rétt. Það eina sem var breytt var reiknireglan (Gripið fram í.) sem skilar því sama og lagt var upp með. (Forseti hringir.) Gagnrýni sérfræðinganna stendur óbreytt, hún stendur alveg óbreytt. (Forseti hringir.) Við fengum upplýsingar um það frá þeim í morgun. (Forseti hringir.) Að ætla svo að fara að taka veiðigjaldið hér til umræðu með fiskveiðistjórnarmálið í algjörri upplausn, (Forseti hringir.) eins og má heyra á stjórnarliðum, er fráleitt, virðulegi forseti. Þetta er ekki hægt, (Forseti hringir.) þetta eru vinnubrögð sem eru ekki bjóðandi.