140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Um hvað snýst þessi umræða? Hún snýst um það að við erum að reyna að leggja hana þannig upp að við getum tekið umræðuna efnislega um mál sem skipta gríðarlega miklu. Það er einfaldlega þannig að forsendan fyrir veiðigjöldunum er það starfsumhverfi sem sjávarútvegurinn mun búa við.

Við þekkjum hvernig starfsumhverfið er í dag í núgildandi lögum og um það eru skiptar skoðanir. Við vitum hins vegar ekki hvernig starfsumhverfið verður á næsta fiskveiðiári, hvað þá lengra fram í tímann, en nú liggur fyrir þinginu frumvarp til laga um gjörbreytingu á þessu starfsumhverfi. Nánast engar breytingar hafa verið boðaðar, ég hef kallað þetta prófarkalestur sem farið hefur fram af hálfu meiri hluta atvinnuveganefndar. Það blasir því við að við erum að sjá fram á starfsumhverfi sem er í samræmi við það frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem er núna til meðferðar í atvinnuveganefnd. Ósk okkar er einfaldlega sú að unnið verði áfram með það frumvarp. Þeirri vinnu er fráleitt lokið, það komu upp ótal spurningar í morgun og það er augljóst mál (Forseti hringir.) að þeim þarf að svara. Þess vegna er það nauðsynleg og eðlileg og sjálfsögð krafa okkar að veiðigjaldafrumvarpið bíði þangað til fyrir liggur hver verður (Forseti hringir.) niðurstaða atvinnuveganefndar varðandi frumvarpið til laga um stjórn fiskveiða. Svo einfalt er þetta mál.