140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef almennt ekki mikinn áhuga á að taka þátt í þeirri skrautsýningu sem hér fer fram undir liðnum fundarstjórn forseta. En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það óskaplega lágkúrulegt að nota þetta tækifæri til að veitast að forsætisráðherra, sem hefur í þessari viku verið í opinberum erindagerðum erlendis, á fundi með leiðtogum samstarfsþjóða okkar og í heimsókn og á fundum með kanslara Þýskalands. Ég held að hv. þingmenn ættu aðeins að hugsa sinn gang áður en þeir bæta viðbótarlágkúru inn í sinn málflutning hér undir þessum fundarstjórnarlið og sýnist mér ekki þörf á að bæta þar í. Ég mótmæli því. Mér finnst hörmulegt að heyra þingmenn ræða með þessum hætti um forsætisráðherra þegar hún er að sinna opinberum embættisskyldum erlendis.

Varðandi veiðigjöld er það sjálfstætt útfærsluatriði í hvaða mæli umframarðurinn á góðum árum í sjávarútvegi er látinn renna til þjóðarinnar. Menn virðast tala hér um stjórn fiskveiða (Forseti hringir.) og það frumvarp eins og það standi til að minnka það sem við megum veiða af fiski. Það er ekki svo. Sem betur fer eru horfur góðar í þeim efnum og tekjustreymi til sjávarútvegsins verður áfram gott. (Forseti hringir.) Og þó að hér verði tekin 15 milljarða veiðigjöld skilur það eftir sennilega yfir 60 milljarða framlegð (Forseti hringir.) í greininni eftir sem áður. Með öðrum orðum, þrátt fyrir þetta veiðigjald verður afkoma íslensks sjávarútvegs (Forseti hringir.) sennilega einhver sú besta sem hún hefur nokkurn tímann verið.