140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. velferðarráðherra, ég hafði hann fyrir rangri sök og bið ég hann forláts á því. Mér hljóp kapp í kinn. Það voru aðrir ráðherrar sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið á harðahlaupum á eftir í þessari viku. Það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta er fjórði þingdagurinn í vikunni. Við höfum lagt inn beiðnir um sérstakar umræður á hverjum einasta degi og eftir því hefur verið leitað en ekki fengist.

Sérstakar umræður um þau mál sem þykja brýn hverju sinni eru mikilvægur hluti eftirlits- og aðhaldshlutverks Alþingis. Hér hefur verið talað um virðingu Alþingis og sjálfstæði þess frá framkvæmdarvaldinu og því hvet ég virðulegan forseta til að halda áfram þeirri brýningu sem ég veit að hún hefur verið með gagnvart framkvæmdarvaldinu, að menn gefi sér tíma til að sinna þessu hlutverki sínu vegna þess að það er ákaflega mikilvægt og ætti að vera sett í forgang.