140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir nokkuð langt gengið í þessum umræðum um fundarstjórn forseta og hvet þingmenn stjórnarandstöðunnar til að láta af þessum leik því að við sjáum að hér er um leikaraskap að ræða. Menn geta ekki óskað eftir tvöföldum ræðutíma um bæði málin, veiðigjöld og fiskveiðistjórnarfrumvarp, og heimtað um leið að þau séu rædd saman.

Ef menn meina eitthvað með því að nauðsynlegt sé að ræða þessi mál saman skulum við bara ræða þau saman en það er þá til þess að fá heildstæða umræðu um þau bæði. (Gripið fram í.) Það sem liggur fyrir er að veiðigjaldafrumvarpið er tilbúið og við skulum ræða það.

Ummælin sem höfð hafa verið um forsætisráðherra eru algjörlega óboðleg þingheimi. Forsætisráðherra er í opinberum erindagjörðum erlendis að tala fyrir hagsmunum þjóðarinnar á erlendri grund. (Gripið fram í: … kominn tími til.) Hún hefur kallað inn varamann og starfandi forsætisráðherra er í salnum. Ég held að þingheimur sem gerir athugasemd við (Forseti hringir.) það í umræðu í þinginu sé á verulegum villigötum. Við verðum að koma umræðunni á hærra plan en þetta.