140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

tollalög.

367. mál
[11:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér koma tollalög til afgreiðslu og ég þakka nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir gott samstarf að málinu. Jafnframt kemur til afgreiðslu breytingartillaga flutt af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni sem lýtur að skemmtiferðaskipum. Það er sameiginlegur skilningur minn og flutningsmanns að þetta ákvæði sé lögfest til bráðabirgða til að mæta þeim skipakomum sem von er á í sumar, og að fjármálaráðherra muni í framhaldinu skipa starfshóp sem komi á haustþingið með tillögur um varanlegt fyrirkomulag skattlagningar skipaumferðar af þessu tagi sem þá verði tekin til nánari umfjöllunar.

Með þeim skilningi tel ég að óhætt sé að samþykkja þá breytingu sem lögð er til af hv. þingmanni eins og hún er lögð til á hlutaðeigandi þingskjali.