140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[12:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að þetta mál sé komið til afgreiðslu. Það hefur verið mjög kallað eftir því að það yrði afgreitt og gerðar þær nauðsynlegu breytingar sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gerði hér grein fyrir. Ég vil hins vegar vara við því að breytingartillaga hv. þm. Róberts Marshalls sé samþykkt því að það mundi kollvarpa algjörlega í grundvallaratriðum því frumvarpi sem verið er að taka til afgreiðslu. Eins og komið hefur fram er gert ráð fyrir því að þau álitamál sem hv. þingmaður nefnir verði skoðuð sérstaklega. Þau eru flókin og staða hesthúsanna og hestamennskunnar er mjög sérstök, um það væri hægt að halda langa ræðu en þessi mínúta dugar ekki til þess. Ég tel því að í þessu samhengi sé eðlilegt að fella tillögu hv. þm. Róberts Marshalls en styðja þá afgreiðslu sem var gerð á þessu máli í umhverfis- og samgöngunefnd.