140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

myndlistarlög.

467. mál
[12:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til laga um myndlistarlög. Mig langar í því sambandi, þrátt fyrir að vera samþykk því frumvarpi sem hér liggur fyrir, að láta í ljós þá skoðun mína og beina því til hæstv. menntamálaráðherra að skoðuð verði sérstaklega heildarlög fyrir höfuðsöfn okkar eins og verið hefur. Hér eru til heildarlög um Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Listasafn Íslands er eitt hinna þriggja höfuðsafna og hér er verið að fella lög um það inn í myndlistarlögin. Ég tel að við þurfum að skoða það að færa það og hafa sérstök heildarlög um Listasafn Íslands.

Í frumvarpinu er engu að síður margt til bóta, þess vegna styð ég þetta frumvarp og stend að nefndaráliti og skora á þingmenn að gera slíkt hið sama.