140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

háskólar.

468. mál
[12:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. framsögumanni málsins, hv. þm. Skúla Helgasyni, fyrir að halda utan um þetta mikla mál sem við höfum verið að fjalla um í vetur. Hér eru ýmis nýmæli í málefnum háskólanna sem bæta og efla starf háskólanna með margvíslegum hætti, styrkja án efa faglegt og akademískt sjálfstæði háskólanna hér, efla fjárhagslegan grunn og stíga skref í þá átt að efla samstarf og vonandi að lokum samruna háskólanna. Eins og við hefur blasað á síðustu missirum hafa háskólarnir verið of margir miðað við fólksfjölda. Hér bætist við nýtt ákvæði og nefndin leggur til að ráðherra skuli skipa nefnd sem geri tillögur í frumvarpsformi sem leiði til aukinnar samvinnu, verkaskiptingar og sameiningar háskóla á Íslandi, svo að ég vitni í fyrstu setninguna í tillögunni. Ég tel það bæta miklu við frumvarpið af því að í nefndinni var mikið rætt um (Forseti hringir.) hvernig hægt væri að stuðla að frekari samvinnu, samruna og samlegðaráhrifum hjá skólunum öllum.