140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. 6–7 milljarða lækkun á veiðigjaldinu á milli umræðna er trúlega ríflega 1% í tekjuskatti fyrir alla landsmenn, þeir hagsmunir sem hér eru, kannski um þriðjungslækkun og verður að telja verulega langt gengið í því að lækka þessi gjöld.

Ég get út af fyrir sig stutt það ef það verður til sátta af hálfu atvinnuveganefndarinnar að lenda málinu með þessum hætti en ég tel mjög langt gengið að almenningur njóti ekki nema 15 af þeim 75 milljörðum sem eru framlegð í greininni. Það er hverjum manni augljóst að ef við byðum mönnum að sækja sjóinn fyrir 40 kr. á þorskkílóið mundu allar þær útgerðir sem eiga að greiða þessi gjöld sækja um að fá að gera það og miklu fleiri, því að þetta veiðigjald er sannarlega undirverðlagning á aðganginum að auðlindinni í hafinu.