140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðferðafræðin við að innheimta auðlindagjald með þeim hætti sem hér er lagt til, annars vegar með föstu gjaldi til að standa undir kostnaði, og hins vegar gjaldi sem tekur mið af afkomu sjávarútvegsins í þessu tilfelli var aldrei gagnrýnd. Hún var ekki gagnrýnd af umsagnaraðilum eða gestum sem til okkar komu.

Það var og er hins vegar ágreiningur um forsendurnar sem til grundvallar liggja, þ.e. á hvaða stofna á að leggja gjaldið og hvernig á að reikna það út. Það er tekið tillit til þess í breytingartillögum meiri hlutans sem ég fór yfir og brugðist við með því að fela hópi sérfræðinga í veiðigjaldsnefnd að finna lausn á því með hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnunum með faglegum hætti að þeirra mati. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður telur að 8 kr. hækkaðar í 9 kr. sé allt of hátt gjald, og segir að það komi einhvers staðar fram að greinin geti ekki staðið undir þessu. Þeir eru að borga þetta í dag, hv. þingmaður. Það er verið að greiða þetta gjald í dag, 9,5 kr., þetta er nánast sama krónutala á kíló og er verið að greiða í dag. Þessu geta menn bara flett upp í gögnum þingsins og örugglega fengið tölvupósta frá Fiskistofu sem staðfesta það. (Gripið fram í.) Þetta er það sem menn eru að greiða í dag.

Að sjálfsögðu eiga allir að greiða fyrir aðgang að auðlindinni. Ekki er þingmaðurinn að leggja til að undanþiggja einhverja frá því, ég ætla að vona ekki. Ég ætla að vona að í orð hans megi ekki leggja þann skilning að þarna sé verið að veita undanþágu frá nýtingu auðlindarinnar. Hvers vegna ætti það að vera, á hvaða grunni ættu slíkar undanþágur að byggjast? Að sjálfsögðu eiga menn að greiða fyrir aðgang að auðlindinni. 9 kr. og 50 aurar, ágætu þingmenn, er ekki hátt gjald.