140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn lögðum fram hugmyndir okkar um hvaða breytingar við vildum sjá á fiskveiðistjórnarkerfinu í sáttanefndinni svokölluðu árið 2010. Hv. þm. Björn Valur Gíslason rakti einmitt ágætlega fyrir mér áðan hvernig við hefðum staðið að því og við stöndum að sjálfsögðu við það. Það er sú leið sem vildum fara. Þar var hins vegar ekki gert ráð fyrir þessu. Það var til dæmis ekki búið að tala fyrir kvótaþingi, það var ekki verið að tala fyrir leigupottum, það var hins vegar talað um að við aðskildum þetta þannig að annars vegar væri krókaaflamark og aflamark og hins vegar einhver hluti sem færi í byggðaleg, atvinnuleg og félagsleg úrræði. Ég tel að það hlutfall ætti að vera sem næst því sem það var til dæmis á fiskveiðiárinu 2008/2009. Það tel ég eðlilegt í því sambandi.

Hvað er hóflegt veiðigjald? Það ræðst algjörlega af því hvernig starfsumhverfi sjávarútvegsins verður. Ef núverandi fiskveiðistjórnarfrumvarp nær fram að ganga þá ræður sjávarútvegurinn ekki við neitt auðlindagjald. Þá er verið að slátra hugmyndinni um auðlindagjaldið. Við sjálfstæðismenn höfðum forustu um það á sínum tíma (Forseti hringir.) að auðlindagjald var lagt á, þá var talað fyrir því að hafa það hóflegt, þá voru allir sammála um að hafa það hóflegt en þau ósköp sem nú er verið að boða okkur er algjör afskræming á því.