140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir það sem hann hefur fylgt úr hlaði með nefndaráliti sínu þó að ég sé ekki alls kostar sáttur við það eða ýmislegt í ræðu hans. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir góða samvinnu í nefndinni það sem af er við þau tvö frumvörp sem við ræðum hér.

Fyrra andsvar mitt til hv. þingmanns er þetta og ég ítreka það sem ég hef sagt áður, ég held að við þurfum að ræða þetta á málefnalegan hátt, það er ekki svo langt á milli í þessum málum ef allt er skoðað og menn þurfa að láta af hinum pólitíska leik. Ég vitnaði í það fyrr í dag að formaður Sjálfstæðisflokksins sagði við framlagningu frumvarpsins að Sjálfstæðisflokkurinn vildi hækka veiðileyfagjaldið og varaformaður flokksins sagði það líka við eldhúsdagsumræður í vor. Í dag er það 4–4,5 milljarðar kr. Þá er spurningin: Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn hækka veiðileyfagjaldið mikið miðað við stöðuna og nýjustu tölur frá 2011, (Forseti hringir.) sem er 75 milljarða kr. framlegð á síðasta ári, 75 milljarða kr. EBITDA? Hversu hátt er hæfilegt auðlindagjald í þeim efnum?