140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil beina spurningu til hv. þingmanns varðandi sjávarútveginn og getu hans til að standa undir auðlindarentunni. Við vitum bæði að greinin hefur borgað innbyrðis háar fjárhæðir, bæði í leiguaflamarki og sölu aflahlutdeilda: Telur þingmaðurinn ekki réttara að greinin greiði auðlindagjald til þjóðarinnar en ekki ígildi þess innbyrðis í greininni sem fer í allt aðra hluti en til viðkomandi sjávarbyggða eða til uppbyggingar greinarinnar?

Nú hefur verið afskrifað mikið í krókaaflamarkskerfinu vegna gengisdóma og ég hlustaði á þátt þar sem hv. þingmaður ræddi við Örn Pálsson um þau mál þar sem kom fram að greinin stendur miklu betur en áður. Telur hv. þingmaður ekki að sú grein standi betur að vígi til að standa undir þessari auðlindarentu miðað við það að verið er að mæta þeim flokki útgerðar með 1,5 milljörðum í afslætti samkvæmt þeim breytingum gerðar hafa verið á frumvarpinu?