140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað mun aflaaukning í þorski hjálpa þorskveiðiútgerðunum til að standa undir skuldbindingum sínum. Við vitum hins vegar ekki hver þróunin verður nákvæmlega. Við skulum vona að langtímaspá Hafrannsóknastofnunar reynist rétt, en við vitum hins vegar ekki hver þróunin verður í ýsunni. Það blæs ekki sérstaklega byrlega miðað við þær tölur sem Hafró hefur nefnt í þeim efnum, eða í steinbítnum, svo dæmi sé tekið, þannig að það mun auðvitað virka í báðar áttir.

Engu að síður er þorskurinn aðalveiðistofn okkar til dæmis á Vestfjörðum. Þetta mun auðvitað skipta gríðarlega miklu máli eins og á Snæfellsnesi og raunar víðar ef þorskaflaaukning verður. En þá er búið að sjá fyrir því. Þessar útgerðir máttu vesgú taka á sig niðurskurðinn þegar grípa þurfti til hans, en þegar kemur að því að auka aflaheimildirnar í þorskinum eru lukkuriddararnir mættir og segja: Heyrðu, nú er komið að okkur, nú ætlum við að fá að skipta þessu líka. Við ætlum að gera þetta einhvern veginn öðruvísi — og koma í veg fyrir að sjávarútvegurinn geti notað þennan tekjuauka til að borga niður skuldir sínar. Sérfræðingarnir hafa bent á og það kemur fram í öllum skýrslum þeirra að ef sjávarútvegurinn fengi (Forseti hringir.) notið þessarar aflaaukningar mundi hann, og þar með talið krókaaflamarkið, ráða við fjárhagsskuldbindingar sínar.