140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni, framsögumanni 2. minni hluta atvinnuveganefndar fyrir nefndarálitið sem hann mælti fyrir. Það var sett fram málefnalega þótt ég sé ekki sammála öllu sem í því stendur. Jafnframt þakka ég hv. þingmanni fyrir afar gott samstarf í nefndinni á þeim 20–25 fundum sem við höfum átt um þessi tvö fiskveiðistjórnarmál sem við höfum fjallað hér um. Ég vildi láta það koma fram strax eftir að hv. þingmaður lauk við að flytja nefndarálit sitt fyrir flokk sinn.

Eins og fram kemur í stefnuskrá Framsóknarflokksins í þessu máli, sem er keimlík mörgu af því sem er í þessum frumvörpum, er talað um hóflegt veiðigjald. Ég er alveg sammála því að það sé æskilegast til að byrja með. Ég mun fara síðar yfir ýmsar forsendur og annað sem varðar málið.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi:

Að óbreyttum fiskveiðilögum og miðað við niðurstöðu síðasta árs þar sem framlegðin var 75 milljarðar kr., en á þessu ári eru áætlaðir að minnsta kosti 80 milljarðar, getur 15 milljarða heildarveiðigjald eins og hér er boðað ekki talist hóflegt veiðigjald til þess að byrja með þar sem 10,5 milljarðar koma í sérstakt veiðigjald og þegar er búið að samþykkja 4,5 milljarða?

Síðan ætla ég að hafa fyrirvara, eins og hv. þingmaður, um breytingar á fiskveiðilögum, hvaða áhrif hefur það hér. Þess vegna miða ég spurninguna við daginn í dag.